Alls hafa 425 látist af völdum kórónuveirunnar. Yfirvöld í kínverska héraðinu Hubei greindu í kvöld frá 64 dauðsföllum til viðbótar af völdum veirunnar.
Að sögn heilbrigðisyfirvalda í Hubei hefur fjöldi smitaðra aukist og eru ný tilfelli nú 2.345 talsins.
Í morgun barst tilkynning um að 362 væru látnir af völdum veirunnar.
Samanlagt hafa því 19.559 smitast af veirunni, sem hefur breiðst út frá Kína til yfir 20 landa. Eitt dauðsfall hefur orðið utan Kína, eða á Filippseyjum.
Kínversk yfirvöld segjast nauðsynlega þurfa á fleiri andlitsgrímum að halda, hlífðarfatnaði og öryggisgleraugum til að berjast gegn útbreiðslu veirunnar.