Vonir standa til að greint verði frá úrslitum úr forvali demókrata í Iowa fyrir forsetakosningarnar að ári síðar í dag. Miklar tafir hafa orðið á birtingu úrslita vegna bilana í snjallforriti sem átti að halda utan um talninguna.
Vel er fylgst með niðurstöðunni í Iowa þar sem hún þykir segja til um hver verði forsetaframbjóðandi flokksins en forvalið er haldið á tæplega 1.700 stöðum.
Fulltrúar Demókrataflokksins sögðu að um tæknilega örðugleika væri að ræða og niðurstöðurnar væru væntanlegar síðar í dag.
Einhverjir frambjóðendur hafa lýst yfir sigri þrátt fyrir að ekki sé búið að birta tölurnar. Þeirra á meðal er Bernie Sanders sem kveðst hafa 28,62% atkvæða en Pete Buttigieg sé með 25,71%.
Buttigieg, borgarstjóri South Bend í Indiana-ríki, sagði hins vegar stuðningsmönnum sínum að allt liti út fyrir að hann færi sigri hrósandi í næsta forval, í New Hampshire.
Alls keppast ellefu frambjóðendur um að hljóta útnefningu sem forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í forvalinu. Í Morgunblaðinu í síðustu viku kom fram að Joe Biden og Sanders hafa mælst að undanförnu með á bilinu 22-25% fylgi í Iowa. Auk þeirra þykir öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren líkleg til árangurs.