Tafir og glundroði í Iowa

AFP

Niðurstöður úr forvali demókrata í Iowa fyrir forsetakosningarnar að ári eru enn óbirtar og ríkir mikill glundroði meðal þeirra sem bíða spennir eftir úrslitunum. Vel er fylgst með niðurstöðunni í Iowa þar sem hún þykir segja til um hver verði forsetaframbjóðandi flokksins. Nú eru liðnir fjórir klukkutímar frá því að til stóð að birta niðurstöðuna og enn bíður fólk. Á sjónvarpsstöðvum reyna fréttaþulir að drepa tímann með spjalli og mögulegum niðurstöðum.

Í yfirlýsingu sem lesin var á ljósvakamiðlum vestanhafs er haft eftir samskiptastjóra Demókrataflokksins í Iowa, Mandy McClure, að ákveðið hafi verið að fara betur yfir niðurstöður eftir að ósamræmi hafi fundist varðandi niðurstöðuna.

Ekki eru allir fullvissir um að þetta sé rétt því repúblikanar, þar á meðal sonur Bandaríkjaforseta, Donald Trump Jr, voru fljótir að segja sína skoðun á samfélagsmiðlum. Telja þeir að vanhæfi eða brögð í tafli skýri tafirnar.

Forvalið í Iowa er haldið á tæplega 1.700 stöðum og er niðurstaðan þar oft upphafið að því að frambjóðendur heltist úr lestinni. Þeir eru alls 11 talsins og er talið að baráttan sé helst á milli Bernie Sanders og Joe Biden. 

Uppfært klukkan 6:35: Bernie Sanders er sigurviss í forvali demókrata því hann hefur lýst yfir sigri þrátt fyrir að ekki sé búið að birta tölurnar. Vísar kosningaskrifstofa Sanders í innanhússtölur og þegar niðurstaðan liggi fyrir frá 40% þeirra sem tóku þátt sé hann með 28,62% en Pete Buttigieg með 25,71%.

For­kosn­ing­arn­ar (e. caucuses) í Iowa eru hins veg­ar frá­brugðnar hefðbundn­um próf­kjör­um (e. primaries) sem önn­ur ríki not­ast við og eru aðeins fyrsta skrefið í þung­lama­legu ferli við að út­nefna fram­bjóðend­ur. 

Líkt og í for­seta­kosn­ing­un­um sjálf­um greiða kjós­end­ur ekki fram­bjóðend­um at­kvæði sín með bein­um hætti held­ur velja þeir svo­nefnda kjör­menn. Þeir velja á end­an­um for­setafram­bjóðend­urna á landsþing­um flokk­anna.

Í Iowa er 1.681 hérað og velja kjós­end­ur í hverju og einu þeirra héraðskjör­menn. Þeir fara síðan á 99 sýsluþing flokk­anna til að tala máli þess fram­bjóðanda sem fór með sig­ur af hólmi í héruðum þeirra. Þar eru nýir kjör­menn vald­ir fyr­ir kjör­dæm­isþing sem vel­ur kjör­menn fyr­ir rík­isþing flokk­anna sem aft­ur vel­ur kjör­menn á landsþingið sem vel­ur á end­an­um fram­bjóðanda fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar.

Í Morgunblaðinu í síðustu viku kom fram að Biden og Sanders hafa mælst að undanförnu með á bilinu 22-25% fylgi í Iowa, en nýjustu kannanir benda til þess að Sanders verði ögn hlutskarpari. Þess má geta að litlu munaði að hann næði meirihluta í kapphlaupinu gegn Clinton fyrir fjórum árum, en einungis munaði um 0,25 prósentustigum á þeim.

Sanders myndi líta á sigur sem ávísun á góðan meðbyr með framboði sínu, þar sem næsta forval verður prófkjör í New Hampshire, sem er nágrannaríki Vermont, heimakjördæmis Sanders. Þar vann hann óvæntan en öruggan sigur á Clinton fyrir fjórum árum.

„Fæstir hinna frambjóðendanna níu eiga von á að ríða feitum hesti frá kjörfundunum í Iowa, en einungis þrír af þeim mælast með meira en um það bil 3% í könnunum. Þeir frambjóðendur munu hins vegar vonast til þess að fylgi þeirra verði ekki svo lítið að ekki taki því að halda slagnum áfram.

Bæjarstjórinn Pete Buttigieg frá Indiana-ríki virðist hafa fest sig í sessi í þriðja sætinu, en hann mælist nú með um það bil 17% fylgi í könnunum. Buttigieg er talinn fulltrúi hófsamari afla innan Demókrataflokksins, líkt og Biden.

Buttigieg, sem er nýorðinn 38 ára gamall, sker sig nokkuð úr hvað aldur frambjóðenda varðar, en hann er fyrrverandi hermaður og trúrækinn. Buttigieg er einnig fyrsti forsetaframbjóðandinn sem nær nokkru fylgi sem er samkynhneigður og hafa því vaknað spurningar um hvort hann geti höfðað til óánægðra repúblikana þegar kemur að slagnum við Trump.

Öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren mælist nú með u.þ.b. 13,5% fylgi í könnunum í Iowa. Warren er líkt og Sanders á vinstri væng Demókrataflokksins, en hún hefur sagt sig vera raunhæfari kost fyrir flokkinn, sér í lagi þar sem hún skilgreinir sig, ólíkt Sanders, sem „kapítalista“. Sanders og Warren hafa tekist hatrammlega á, enda að fiska á sömu miðum, en Warren hefur m.a. lagt til að hinir „ofurríku“ þurfi að greiða 2% af tekjum sínum í hátekjuskatt.

Aðrir frambjóðendur eiga lítið upp á dekk hjá kjósendum í Iowa. Þeir hugga sig þó við að velgengni þar tryggir einungis stuðning um 41 fulltrúa af þeim tæplega 4.000 sem munu hafa endanlegt val um það hver frambjóðandi Demókrataflokksins verður. Áhrifin af Iowa gætu þó orðið einkum sálræn, þar sem enginn af frambjóðendum vill byrja mikilvægustu stjórnmálabaráttu ævi sinnar á tapi,“ segir í frétt í Morgunblaðinu frá því á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert