Æðstu embættismenn í Kína hafa viðurkennt að ekki hafi verið brugðist nógu hratt við þegar kórónuveiran greindist fyrst í borginni Wuhan undir lok síðasta árs. Jafnframt að gallar hafi verið á þessum fyrstu viðbrögðum. BBC greinir frá.
Það er ekki oft sem Kínverjar viðurkenna mistök opinberlega en í skýrslu sem lögð hefur verið fram segir að nauðsynlegt sé að bæta almannavarnakerfið í landinu til að sömu mistök verði ekki gerð aftur. Mikilvægt sé að geta brugðist hraðar við alvarlegum málum er koma upp.
Þá hefur einnig verið fyrirskipað að ákveðnum mörkuðum þar sem lifandi dýr ganga kaupum og sölum verði lokað, en talið er að rekja megi kórónuvírusinn til slíks markaðar í Wuhan. Jafnframt verði eftirlit með mörkuðum aukið.
Fyrstu viðbrögð Kínverja við veirunni hafa verið harðlega gagnrýnd og yfirvöld sögð hafa gert lítið úr alvarleika málsins í fyrstu, jafnvel að í sumum tilfellum hafi smiti verið haldið leyndu.
Læknir í Wuhan sem reyndi að gera kollegum sínum grein fyrir alvarleika veirunnar var sagður bera út falskan boðskap og lögregla hafði afskipti af honum fyrir ólöglegt athæfi. Það var ekki fyrr en seint í janúar að yfirvöld í Kína ákváðu að loka Hubei-héraði, þar sem Wuhan-borg er og halda svæðinu í einangrun.
Alls hafa 425 látist af völdum kórónuveirunnar og hátt í 20 þúsund smitast. Að sögn heilbrigðisyfirvalda í Hubei-héraði eru ný tilfelli 2.345 talsins.
Kínverjar réðust í byggingu á tveimur sjúkrahúsum í Wuhan, en það tók aðeins átta daga að klára annað þeirra sem nú hefur verið tekið í notkun. Þar eru um 1.000 rúm.