Mitt Romney, repúblikani og þingmaður öldungadeildar Bandaríkjaþings, ætlar að greiða atkvæði með sakfellingu Donalds Trump Bandaríkjaforseta í réttarhöldunum yfir honum.
„Forsetinn er sekur um að misnota traust almennings á grófan hátt,“ sagði Romney, sem bauð sig fram til forseta árið 2012, í ræðu sem hann hélt í öldungadeildinni.
„Það að spilla kosningum til að halda sér í embætti er mögulega mesta brot sem hægt er að fremja í embætti,“ sagði Romney.
Talið er að hann verði eini repúblikaninn sem greiðir atkvæði með sakfellingu Trump.
Sen. Mitt Romney: "The grave question the Constitution tasks senators to answer is whether the president committed an act so extreme and egregious that it rises to the level of a high crime and misdemeanor. Yes, he did." https://t.co/lnO7tfCnND pic.twitter.com/RO6YKTmtro
— ABC News (@ABC) February 5, 2020
Trump er sakaður um að hafa sett Úkraínumönnum það skilyrði fyrir hernaðaraðstoð að þeir hæfu rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og pólitískum andstæðingi Trumps. Trump var í kjölfarið ákærður fyrir embættisbrot en mjög ólíklegt þykir að hann verði sakfelldur, sér í lagi eftir að öldungadeildin hafnaði frekari vitnaleiðslum í málinu.