Einn banani á dag — skolað niður með nettum viskí, þetta er auðmjúk beiðni frá breskum farþega um borð í skemmtiferðaskipinu þar sem farþegar eru í einangrun vegna kórónuveirunnar fyrir utan strönd Japan.
Færslur David Abel á Facebook úr einangruninni hafa gert hann að samfélagsmiðlastjörnu þar sem hann gleður heiminn með breskum húmor í reglulegum færslum frá Diamond Princess þar sem þúsundum er haldið í einangrun.
„Ég veit að herbergisþjónustan er einnig að sjá þessi skilaboð. Þannig að ég sendi þessi skilaboð til ykkar. Getur einhver úr herbergisþjónustu fært mér ferskan banana á hverjum degi? Bara einn banana. Það er allt sem ég fer fram á,“ skrifar hann í nýlegri færslu á Facebook.
Hann beinir einnig orðum sínum að skipherranum. „Ef skipherrann er að fylgjast með þá er óþarfi að þú blandist inn í þetta með bananann. Herbergisþjónustan mun sjá um það er ég viss um. En það væri algjörlega frábært að fá glas af viskí með til að skola honum niður.“
Um myndskilaboð er að ræða og hlæjandi segir Abel: „Ég myndi þiggja 10 ára gamalt maltviskí, Talisker, engan klaka, ekkert vatn. Það væri stórkostlegt ef það væri hægt að koma því í kring.“
Abel segir í samtali við AFP-fréttastofuna að fjölmargir fjölmiðlar hafi sett sig í samband við hann enda allir að eltast við fréttir af fólki um borð í skipinu. Hann segist bara lýsa stöðunni eins og hún er. Farþegar um borð eru í tveggja vikna sóttkví eftir að 20 manns um borð hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni.
„Þetta er hræðilegt ástand fyrir flesta farþega um borð. Að sitja hér fastir, lokaðir inni í káetum sínum. Við megum ekki fara út úr þeim,“ segir hann og bætir við að ástandið sé nánast óbærilegt fyrir þá sem eru með káetu án glugga. Þeir hafi ekki aðgang að sólarljósi né fersku andrúmslofti. Þeir hafi lært af biturri reynslu — að panta næst káetu með glugga þó svo það kosti meira.
Abel segir að illa hafi gengið fyrir farþega að fá upplýsingar frá áhöfn skipsins. Til að mynda sé ekki enn búið að segja farþegum frá þeim tíu nýju tilvikum veirunnar sem upplýst var um seint í gærkvöldi. Hann óttast að þetta geti lengt tímann sem farþegar þurfa að vera í sóttkví.
„Ég vona að við komumst heim fyrir jól,“ segir Abel og hlær.
Áður hafði Abel tjáð sig um matinn um borð sem hefur versnað verulega síðan farþegarnir voru settir í sóttkví. „Við erum svo sannarlega ekki á lúxussiglingu,“ segir hann og bætir að ferðalag sem átti að verða besta ferð ævinnar hafi breyst í fljótandi fangelsi.
Alls eru 563 látnir úr kórónuveirunni (2019-nCoV) en í næstu viku ætla sérfræðingar í heilbrigðisvísindum að hittast á fundi hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) í Genf þar sem reynt verður til þrautar að framleiða bóluefni.
Kínversk yfirvöld greindu frá því í dag að 73 hefðu látist síðasta sólarhringinn þar í landi. Af þeim eru 70 í Hubei-héraði, þar sem veiran er talin eiga upptök sín. Stjórnendur sjúkrahúsa í borginni Wuhan segjast vera í verulegum vandræðum með að finna rúm fyrir alla þá sem eru smitaðir en alls eru 28.018 með staðfest smit í Kína. Síðasta sólarhringinn hefur þeim fjölgað um 3.694 og er þetta mesta aukning á einum sólarhring frá því veiran var fyrst greind. Grunur leikur á að 24.702 til viðbótar séu smitaðir.
Fyrir utan Kína eru að minnsta kosti 230 staðfest tilvik, þar af hafa tveir látist, einn á Filippseyjum og annar í Hong Kong.
Japönsk yfirvöld hafa tekið sýni úr 273 farþegum og áhöfn Diamond Princess og liggur niðurstaða fyrir úr 102. Af þeim eru 20 smitaðir af kórónuveirunni. Rúmlega 3.700 voru um borð í skipinu þegar fyrsta smitið var greint en það var farþegi sem fór í land í Hong Kong.