Alls hefur 61 farþegi um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess greinst smitaður af kórónuveirunni en um 3.700 eru um borð í skemmtiferðaskipinu fyrir utan strönd Japans. Farþegar annars skemmtiferðaskips, World Dream, eru í sóttkví í Hong Kong eftir að átta fyrrverandi farþegar reyndust smitaðir. Þar eru 3.600 um borð en enginn þeirra sem enn eru um borð hefur greinst með kórónuveiruna, 2019-nCoV.
Diamond Princess var sett í sóttkví við Yokohama eftir að í ljós kom að áttræður farþegi, sem fór frá borði í Hong Kong 25. janúar, reyndist smitaður. Vitað er að farþegarnir þurfa að vera í sóttkví um borð í að minnsta kosti tvær vikur. Alls var 41 greindur með veiruna síðasta sólarhringinn og þýðir þetta að alls eru tilfellin orðin 86 í Japan og eru hvergi í heiminum jafn mörg fyrir utan Kína.
Heilbrigðisráðherra Japans, Katsunobu Kato, segir að alls hafi verið tekin sýni úr 171 um borð í gær og af þeim hafi 41 verið sýktur. Þeir verði sendir á sjúkrahús í dag.
Eitt af því sem hefur valdið ótta meðal þeirra sem eru í einangrun um borð er skortur á lyfjum um borð vegna einangrunarinnar. Af þeim farþegum sem hafa greinst með kórónuveiruna eru 28 Japanar, 11 Bandaríkjamenn, Sjö Ástralar og sjö Kanadabúar, þrír Kínverjar og einn Breti, Nýsjálendingur, Taívanbúi, Filippseyingur og einn frá Argentínu.
Nýjar tölur herma að 636 hafi látist úr kórónuveirunni sem talin er hafa átt upptök sín í kínversku borginni Wuhan. Flestir þeirra sem hafa látist og smitast eru þaðan og annars staðar frá Hubei-héraði. Á meginlandi Kína eru staðfest 31.161 smit.
Kínversk yfirvöld hafa ákveðið að hefja rannsókn á því hvers vegna ekki var hlustað á lækninn sem varaði við kórónuveirunni. Læknirinn, Li Wenliang, lést í gær (aðfaranótt föstudags á kínverskum tíma) í borginni Wuhan þar sem hann starfaði.
Senda á rannsóknarteymi til borgarinnar en dauði Li hefur vakið mikil viðbrögð meðal fólks á samfélagsmiðlum í Kína. Er fólk afar ósátt við hvernig kínversk stjórnvöld tóku á veirunni í upphafi. Telur fólk að ef yfirvöld hefðu tekið mark á Li á sínum tíma væri staðan önnur en hún er í dag. Li er einn átta lækna sem var refsað af lögreglunni í Wuhan fyrir að tala um hættuna, á að veira svipuð SARS væri komin til borgarinnar í desember, á samfélagsmiðlum.
Hæstiréttur Kína gagnrýndi lögregluna í Wuhan harðlega í janúar fyrir að hafa refsað þeim sem vöruðu við hættunni. Taldi hæstiréttur að ef yfirvöld í borginni hefðu gripið til aðgerða, í stað þess að refsa, væri staðan önnur.
Líkt og greint var frá á mbl.is í gær er breskur farþegi um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess, David Abel, duglegur að setja myndskeið inn á Facebook þar sem hann lýsir lífinu um borð. Hann segir að allir um borð þurfi að mæla sig reglulega og ef einhver er með hita er viðkomandi gert að láta lækna vita.
Farþegar í káetum sem ekki eru með glugga hafa haft það frekar slæmt þessa daga sem þeir eru búnir að vera í einangrun enda hafa þeir hvorki aðgang að fersku lofti né sólarljósi. Abel segir að skipherrann hafi tjáð þeim að þeim farþegum verði heimilað að fara út á þilfar til að hreyfa sig og anda að sér fersku lofti. Sett er sem skilyrði að viðkomandi sé með grímu og að minnsta kosti 1 metri sé í næsta mann og alls ekki megi safnast saman í hópa.
Allur munaður eins og súkkulaði á koddann er ekki lengur í boði. Farþegar þurfa að þrífa og gæta hreinlætis í káetum sínum sjálfir. Ekki er boðið upp á þvottaþjónustu og því reyni farþegar að handþvo sjálfir nærföt og sokka. Engin þvottaefni eru í boði — bara handsápa.