Didier Gailhaguet, formaður franska skautasambandsins, sagði af sér í skugga kynferðisbrotamála. Gailhaguet tengist ekki sjálfur brotunum með beinum hætti heldur er hann sakaður um að líta fram hjá þeim. Hann hefur verið valdamikill innan franska skautaheimsins í áratugi og hefur meðal annars gegnt formennsku nánast óslitið frá árinu 1998.
Franska skautadrottningin Sarah Abitbol sem er 44 ára greindi frá því í ævisögu sinni að fyrrverandi skautaþjálfarinn hennar Gilles Beyer hafi nauðgað sér fyrst þegar hún var 15 ára gömul. Eftir það héldu brotin áfram og stóðu yfir á árunum 1990 - 1992 þegar hún var 15 til 17 ára gömul. Hún er margfaldur franskur meistari á listskautum og var sigursæl með dansfélaga sínum Stéphane Bernadis.
Eftir að ævisagan kom út í síðustu viku í Frakklandi hafa fleiri konur stigið fram og lýst kynferðisbrotum og kúgun sem þessi þjálfari, Beyer, og aðrir beittu þær.
Beyer hefur viðurkennt að hafa átt í „óviðeigandi“ samskiptum við Abitbol og hefur „beðist afsökunar.“ Abitbol segir að slíkt sé ekki nóg heldur krefst hún viðurkenningar á brotunum hjá „öllum þeim sem hylmdu yfir [brotunum] bæði í klúbbnum og í sambandinu“.
Á mánudaginn í síðustu viku krafðist Roxana Maracineanu, íþróttamálaráðherra landins, að Gailhaguet segði af sér. Fram til dagsins í dag hefur hann neitað að verða við því og þvertekið fyrir að hafa verndað Beyer og hylmt yfir með honum. Hann segist fyrst hafa heyrt af brotunum í fyrrgreindri ævisögu Abitbol fyrir 10 dögum.
Gailhaguet greindi frá ákvörðun sinni í dag eftir fund skautasambandsins (FFSG) og sagðist jafnframt stíga til hliðar „með reisn en ekki biturleika“.
Lögmaður Beyer segir að hann hafi verið leiddur á gapastokk fjölmiðla og muni leita réttar síns. Hann mun hins vegar ekki tjá sig við fjölmiðla heldur ræða við saksóknara.
Beyer var ráðinn til sem þjálfari franska landsliðsins á skautum eftir að hann hætti að þjálfa Abitbol. Gailhaguet kom það þeirri ráðningu því hann var formaður franska skautasambandsins á þeim tíma.
Árið 2000 var Beyer sakaður um óviðeigandi hegðun í starfi. Rannsókn á málinu leiddi til þess að honum var vikið úr starfi sem tækniþjálfari skutasambandsins að beiðni íþróttamálaráðuneytisins. Hins vegar hélt Beyer áfram að þjálfa hjá einu fremsta skautafélagi í Frakklandi.