Tugum skelfingu lostinna viðskiptavina hefur verið bjargað út úr verslunarmiðstöð þar sem vopnaður hermaður hefur haldið fólki í gíslingu. Sérsveitir lögreglunnar segjast hafa náð tökum á ástandinu.
Hermaðurinn, Jakraphanth Thomma, hefur drepið tuttugu manns og sært tugi í taílensku borginni Nakhon Ratchasima.
Sérsveitin hvetur fólkið til þess að lyfta upp höndum og gera grein fyrir sér þar sem það er á fyrstu hæð verslunarmiðstöðvarinnar. Lögreglan heitir því að koma þeim heilu og höldnu út úr miðstöðinni en vígamannsins er enn leitað. Óttast er að hann reyni að laumast út meðal viðskiptavinanna.