Fjöldi látinna af völdum kórónuveirunnar 2019-nCOV er kominn upp í 800. Kínversk stjórnvöld greindu frá þessu í dag. Fleiri hafa því látist af völdum veirunnar en SARS á heimsvísu á árunum 2002 og 2003. Alls létust 774 úr SARS-veirunni á sínum tíma. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telur að svo virðist sem að nokkuð jafnvægi sé að komast á faraldurinn þrátt fyrir fjölgun dauðsfalla.
Tæplega 37.200 manns hafa smitast af veirunni í Kína, flestir í borginni Wuhan og nágrenni hennar þar sem hún á upptök sín. Heldur hefur dregið úr fjölgun smita en of snemmt sé að segja til um framhaldið, samkvæmt upplýsingum frá Michael Ryan, yfirmanni bráðadeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Fjöldi nýrra tilvika sem hafa greinst hefur aldrei verið viðlíka og á miðvikudaginn í síðustu viku þegar þau voru 3.900 talsins. Í dag sunnudag voru skráð um 2.600 tilvik.
Kínversk stjórnvöld eru harðlega gagnrýnd fyrir að bregðast seint og illa við um leið og grunur kviknaði um að ný tegund af veiru hefði tekið sér bólfestu í mannfólki. Yfirvöld þögguðu niður í lækninum sem varaði við kórónuveirunni en hann lést á föstudaginn. Gríðarleg reiði braust út á meðal almennings í kjölfarið.
„Veiran hélt áfram að malla og þróast án þess að nokkur gerði sér almennilega grein fyrir því,“ segir Ian Lipkin, prófessor við Columbia-háskólann í Bandaríkjunum, sem starfaði með kínverskum stjórnvöldum þegar SARS-veiran kom upp.
Hann gagnrýnir stjórnvöld og segir að þau hefðu vel getað brugðist betur við og gert viðeigandi ráðstafanir til að hefta útbreiðsluna.
Hann telur að kórónaveiran nái toppi sínum innan skamms. Hins vegar gæti hún komst aftur á skrið þegar fólk mætir til vinnu og samfélagið kemst aftur í fastar skorður eftir miklar lokanir og einangrun íbúa síðasta mánuðinn víða í Asíu.