„Alvarleg og yfirvofandi ógn“ við almannaheill

Fjórir hafa greinst með kórónuveiruna í Bretlandi. Breska ríkisstjórnin gaf …
Fjórir hafa greinst með kórónuveiruna í Bretlandi. Breska ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu í morgun þar sem segir að kórónuveiran sé „alvarleg og yfirvofandi ógn“ við almannaheill og hyggst hún grípa til frekari aðgerða í baráttunni gegn útbreiðslu veirunnar. AFP

Kórónuveiran er „alvarleg og yfirvofandi ógn“ við almannaheill að mati bresku ríkisstjórnarinnar sem sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis í morgun. 

Stjórnvöld hyggjast grípa til frekari aðgerða til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Það getur meðal annars falist í skertu ferðafrelsi og að fólk verði skikkað í sóttkví. 

Fjöldi lát­inna af völd­um kór­ónu­veirunn­ar 2019-nCOV er kom­inn upp í 910 og yfir 40 þúsund eru smitaðir, langflestir í Kína. 

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, greindi frá því í morgun að einn spítali og tvær aðrar byggingar hafi verið hugsaðar sem sóttvarnamiðstöðvar, komi til þess að útbúa verði slíkar. 

Tveimur flugvélum fullum af farþegum hefur verið flogið frá kínversku borginni Wuhan, þar sem veiran á upptök sín, til Bretlands. Flogið var með 200 farþega í gær. 

Fjórir hafa greinst með kórónuveiruna í Bretlandi. 

„Við erum að herða regluverkið í þeim tilgangi að geta haldið einstaklingum í einangrun í öryggisskyni og ef heilbrigðisstarfsmenn telja að þeir séu í hættu á að smita almenning. Þetta auðveldar okkur að tryggja öryggi allra í landinu,“ segir talsmaður heilbrigðisráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert