Yfir 100 bandarískir hermenn hlutu heilaáverka í flugskeytaárásum Írana á bandarískar herstöðvar á tveimur flugvöllum í Írak 8. janúar.
Áður hafði bandaríska varnarmálaráðuneytið greint frá því að 64 hermenn glímdu við heilaáverka í kjölfar árásanna en uppfærð gögn sýna að alls hlutu 109 hermenn áverka í árásunum tveimur, sem gerðar voru í hefndarskyni fyrir dráp bandarískra yfirvalda á íranska hershöfðingjanum Qassem Soleimani rétt eftir áramót.
Enginn féll í árásunum og Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í fyrstu að enginn hefði slasast í árásunum og gerði lítið úr þeim.
„Ég frétti að þeir væru með hausverk, og eitthvað smávegis til viðbótar, en ég myndi segja að þetta væri ekki alvarlegt,“ sagði Trump í síðasta mánuði þegar hann var spurður um áhrif árásanna.
Samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu er um vægan heilahristing að ræða. Meiðsli hermannanna eru ekki alvarlega og hafa 76 hafið störf á ný.
Síðastliðin 20 ár hafa alls um 408.000 bandarískir hermenn fengið heilahristing við störf sín, samkvæmt gögnum varnarmálaráðuneytisins.