Geta hæft norsk skotmörk á 40 mínútum

Máttur Kinzhal-flugskeytisins (kinzhal táknar tvíeggja rýting á rússnesku) útskýrður. Væri …
Máttur Kinzhal-flugskeytisins (kinzhal táknar tvíeggja rýting á rússnesku) útskýrður. Væri slíku skeyti skotið frá orrustuþotu, sem hefur sig til flugs frá Kólaskaga, gæti það flutt allt að 500 kg kjarnaodd að hernaðarlega mikilvægum skotmörkum í Noregi á 40 mínútum, þar á meðal Ørland-herflugstöðinni, heimavelli nýju F-35-orrustuþotna norska flughersins. Skýringarmynd/Norska leyniþjónustan

Ný rússnesk flugskeyti af gerðinni Kinzhal geta hæft hernaðarlega mikilvæg skotmörk í Noregi 40 mínútum eftir að flugvél sem ber slík skeyti hefur sig á loft frá Kólaskaganum í Rússlandi. Þetta sagði Morten Haga Lunde, yfirmaður norsku leyniþjónustunnar, í fyrirlestri sem hann hélt í Ósló á sunnudagskvöld.

Í fyrirlestrinum, sem Lunde hélt á samkomu Oslo Militære Samfund, samtaka sem hafa fræðslu um varnir Noregs og málefni hersins á stefnuskrá sinni, kynnti leyniþjónustustjórinn höfuðatriði skýrslunnar FOKUS 2020 sem fjallar um öryggismál ríkisins á nýhöfnu ári og þau atriði sem leyniþjónustan og herinn telja ástæðu til að fylgjast með.

Dró Lunde Rússland og Kína fram sem þau ríki sem Noregi bæri einkum að gjalda varhug við næstu misseri og ræddi sérstaklega um nýjungar í vopnasafni Rússa sem undanfarið hafa gert sig æ digrari á hafinu úti fyrir Noregsströndum og sýnt þar mátt sinn og megin með ýmsum heræfingum.

„Við höfum séð prófanir Kinzhal-skeytisins og teljum að sé slíku skeyti skotið frá flugvél yfir Kólaskaganum höfum við 40 mínútur frá því vélin hefur sig á loft og þar til skeytið hæfir skotmark í Noregi,“ sagði Lunde.

Lagði hann höfuðáherslu á flugherstöðvarnar í Andøya, Bodø og Ørland en síðastnefnda stöðin er heimavöllur hinna nýju krúnu­djásna norska flug­hers­ins, tólf glæ­nýrra F35A-orr­ustuþotna sem flogið hef­ur verið í nokkr­um af­hend­ing­ar­holl­um frá verk­smiðjum Lockheed Mart­in í Texas frá haust­inu 2017.

Rússnesk MiG-31K-orrustuþota vopnuð Kinzhal-flugskeyti sem náð getur tíu til tólfföldum …
Rússnesk MiG-31K-orrustuþota vopnuð Kinzhal-flugskeyti sem náð getur tíu til tólfföldum hljóðhraða og hæft skotmörk í yfir 2.000 kílómetra fjarlægð. The Barents Observer kallar Kinzhal-skeytið „óstöðvandi“ í frétt sinni sem vísað er til neðst í þessari frétt. Ljósmynd/Rússneski herinn

Kinzhal-skeytin eru þau nýjustu í vopnabúri Pútíns, afhjúpuð 1. mars 2018. Slík skeyti, sem orrustuvélar af gerðinni Tupolev Tu-22M og MiG-31K geta borið, flytja allt að 500 kílógramma þunga sprengihleðslu, sem getur verið kjarnaoddur, yfir 2.000 kílómetra vegalengd og eru talin geta náð tíu- til tólfföldum hljóðhraða, eða 12.000 til tæplega 15.000 kílómetra hraða miðað við klukkustund.

Þróa vopn gegn gervihnöttum

Einnig sagði Lunde Rússa vinna að þróun vopns sem skotið geti niður gervihnetti. Það vopn hafi verið í þróun árum saman en þess sé vænst að það verði nothæft innan þriggja ára og sagði Lunde gervihnattavopnið „nýja vídd í verkfærakassa Rússahers“.

„Herstyrkur Rússa í næsta nágrenni okkar eykst hröðum skrefum. [...] Við sjáum móta æ meira fyrir lagskiptu, samþættu og sveigjanlegu kerfi,“ sagði hann og ræddi auk þess annars konar herkænsku sem fælist ekki í vopnabraki heldur efnahagsþvingunum, falsfréttum og netárásum.

Nokkur helstu flugskeyti Rússa auk leysigeislavopnsins Peresvet (lengst til hægri) …
Nokkur helstu flugskeyti Rússa auk leysigeislavopnsins Peresvet (lengst til hægri) sem er loftvarnavopn og á að geta skotið niður flugvélar og aðvífandi flugskeyti. Eins og Kinzhal-flugskeytið var Peresvet frumsýnt á hersýningu í Rússlandi 1. mars 2018. Skýringarmynd/Norski herinn

„Þær ógnir sem við stöndum frammi fyrir árið 2020 eru afleiðing breytinga sem hafa staðið árum saman. Hraði þeirrar þróunar eykst núna samhliða valdatafli stórvelda og alþjóðlegu vígbúnaðarkapphlaupi þar sem regluverk víkur fyrir valdbeitingu,“ sagði Lunde í erindi sínu.

Hann sagði spurninguna nú vera hvort norsk stjórnvöld væru reiðubúin til að fjárfesta í og láta hernum í té þau verkfæri sem dygðu til að mæta ógnum dagsins í dag og framtíðarinnar.

Norðurfloti Rússa væri að auka styrk sinn til muna með endurnýjun herskipa auk þess sem settar hefðu verið upp nýjar ratsjárstöðvar sem sérstaklega væru settar til höfuðs torséðum (e. stealth) orrustuþotum vesturveldanna. Sem dæmi um hið fyrra nefndi Lunde tilraunir með nýjan kafbát af Dolgorukij-framleiðslulínunni.

„Dolgorukij-bátarnir bera langdrægar burðarflaugar og eru fyrsta nýja gerð hernaðarkafbáta sem Rússar þróa eftir lok kalda stríðsins. Þegar prófunum þeirra lýkur munu tveir slíkir bætast við Norðurflotann auk þess sem verið er að prófa nýjan fjölnota [e. multi-role] Severodvinsk-kafbát á sömu slóðum.“

NRK

VG

VGII

The Barents Observer

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert