Omar al-Bashir í hendur stríðsglæpadómstóls

Omar al-Bashir í búri meðan á réttarhöldunum stóð í desember.
Omar al-Bashir í búri meðan á réttarhöldunum stóð í desember. AFP

Stjórn­völd í Súd­an hafa verið beðin um að færa Omar al-Bashir í hend­ur stríðsglæpa­dóm­stóls­ins í Haag.

For­set­inn fyrr­ver­andi er sakaður um þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mann­kyn­inu vegna átak­anna sem brut­ust út í Darf­ur-héraði árið 2003.

Omar-al Bashir var steypt af stóli í apríl í fyrra. Hann komst til valda í Súd­an í vald­aráni hers­ins árið 1989 og stjórnaði land­inu með harðri hendi.

Sak­sókn­ar­ar stríðsglæpa­dóm­stóls­ins hafa óskað eft­ir því að hann sitji rétt­ar­höld vegna dráp­anna í Darf­ur, að sögn BBC.

Að sögn Sam­einuðu þjóðanna voru um 300 þúsund manns drep­in og um 2,5 millj­ón­ir þurftu að flýja heim­ili sín í stríðinu.

Í des­em­ber hlaut Bashir tveggja ára dóm fyr­ir spill­ingu og var gert að afplána dóm­inn í betr­un­ar­stöð í stað fang­els­is.  

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert