Ástarbátur: Valentínusardagur í sóttkví

Farþegar á gangi um borð í skemmtiferðaskipinu.
Farþegar á gangi um borð í skemmtiferðaskipinu. AFP

Skemmtanastjóri Diamond Princess, sendi frá sér hjartnæm skilaboð á Twitter, klædd rauðum kjól í tilefni Valentínusardagsins.

Skemmtiferðaskipið er í sóttkví við strendur Japans vegna kórónuveirunnar COVID-19 en yfir 200 farþegar hafa greinst með hana.

„Mig langaði bara að athuga með stöðuna á öllum og segja að við látum ekki deigan síga, okkur líður vel og höldum saman eins og stór fjölskylda,“ sagði hún og bætti brosandi við: „Þetta hefur ekki verið minn hefðbundni klæðnaður síðustu vikuna eða hér um bil.“

Matt Smith sem er 57 ára, heldur upp á Valentínusardaginn um borð í skipinu ásamt eiginkonu sinni til 21 árs, Katherine Codekas, einnig 57 ára. Hann viðurkennir að hann hefði viljað vera annars staðar á þessum degi. „Eftir 21 árs hjónaband gerum við ekki mikið mál úr þessu [Valentínusardeginum] en venjulega fær Katherine kort frá mér, að minnsta kosti.“

„Við erum frekar leið yfir þessum kringumstæðum,“ bætti hann við í samtali við AFP. „Facebook minnti okkur á það í morgun að fyrir þremur árum vorum við í Las Vegas. Þetta kallar maður að strá salti í sárin!“

Farþegi á svölum skemmtiferðaskipsins Diamond Princess.
Farþegi á svölum skemmtiferðaskipsins Diamond Princess. AFP

Að sögn Smith var farþegum boðinn svokallaður Valentínusar-morgunverður og í kvöld verður boðið upp á ýmislegt góðgæti, þar á meðal franska réttinn Coq au Vin með kartöflumús og grænmeti, ásamt óvæntum eftirrétti í tilefni dagsins.

„Coq au Vin, já takk,“ tísti Yardley Wong, sem hefur sett inn margar færslur á Twitter um veru sína á skipinu og tilraunir til að hafa ofan af fyrir syni sínum.

Matreiðslufólkið á skipinu lætur ástandið ekki á sig fá og setti í morgun myndskeið á Twitter þar sem það dansa í eldhúsinu, væntanlega til að gleyma.


Þessi maður setti inn færslu um tengdamóður sína sem er að föndra í tilefni dagsins um borð í skipinu: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert