Borgaryfirvöld í Peking, höfuðborg Kína, hafa skipað öllum íbúum sem snúa aftur til borgarinnar að fara í 14 daga einangrun, ellegar verði þeim gert að sæta refsingu. Samkvæmt kínverskum ríkisfjölmiðli er þetta liður í að reyna að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar COVID-19.
Íbúum hefur verið sagt að vera í einangrun heima hjá sér eða dvelja í sérstökum einangrunarbúðum eftir að þeir koma aftur heim úr fríi en rúmlega 20 milljónir búa í Peking.
Gripið hefur verið til þessara ráðstafana eftir að greint var frá fyrsta smitinu í Afríku.
Alls hafa 1.384 látist af völdum veirunnar sem á upptök sín í kínversku borginni Wuhan, þar sem dánartíðni er langhæst.
Sérfræðingar við verkfræðideild John Hopkins-háskóla í Maryland í Bandaríkjunum hafa útbúið gagnvirkt kort þar sem hægt er að fylgjast með útbreiðslu kórónuveirunnar. Kortið má nálgast hér en það er uppfært reglulega.