Emmanuel Macron Frakklandsforseti segist reiðubúinn að gefa grænt ljós á að Evrópusambandið hefji aðildarviðræður við N-Makedóna og Albana að því gefnu að væntanleg skýrsla staðfesti nægilegan árangur af umbótum í ríkjunum tveimur. Þetta kom fram í ræðu hans á Öryggisráðstefnunni í München.
Balkanríkin tvö hafa bæði sótt um aðild að Evrópusambandinu og NATO, en í nóvember í fyrra kaus Macron gegn því að viðræður skyldu hafnar. Sérhvert ríki ESB hefur neitunarvald gegn inngöngu nýrra ríkja og því nægði atkvæði Macron til að fresta enn um sinn aðildarviðræðunum.
Á ráðstefnunni í dag hafnaði Macron því þó að hafa verið sá eini sem ekki vildi hefja viðræður. „Þó nokkur ríki voru á móti því að hefja viðræður við Norður-Makedóníu og Albaníu,“ sagði Macron. Forsetinn franski hefur látið hafa eftir sér að hann vilji grundvallarendurskoðun á inngönguferlinu í sambandið, þar sem það einkennist af „of mikilli skriffinnsku og tæknileika“.
Albanía sótti um aðild að Evrópusambandinu 28. apríl 2008, þremur mánuðum á undan Íslandi, en Evrópusambandið hefur síðan þá sett marga fyrirvara við að viðræður geti hafist. Einkum má nefna aðgerðir á fimm sviðum, sem stækkunarstjóri Evrópusambandsins, Johannes Hahn, útlistaði í bréfi til albanskra stjórnvalda í mars 2015: umbætur á opinberri stjórnsýslu, réttarríkinu og grundvallarréttindi þegna auk aðgerða til að taka á spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi.
Albönsk stjórnvöld hafa tekið markviss skref til að geðjast Evrópuríkjunum. Má þar nefna stjórnarskrárbreytingu árið 2016 þar sem skipan dómara er sett í hendur óháðrar dómnefndar erlendra fræðimanna, með það að markmiði að tryggja pólitískt hlutleysi þeirra. Þá verður skipan þeirra að hljóta stuðning aukins meirihluta, 2/3 hluta þingmanna.
Framkvæmdastjórn ESB lagði til í nóvember 2016 að aðildarviðræður skyldu hafnar en stjórnvöld í Þýskalandi tilkynntu þá að þau legðust gegn aðildarviðræðum þangað til 2018.
Þegar eru þrjú ríki í aðildarviðræðum við ESB, Svartfjallaland, Serbía og Tyrkland, en hið síðastnefnda hefur átt í viðræðum frá árinu 1978 og eru þær í raun frosnar.
Norður-Makedónía sótti um aðild að ESB árið 2005. Hindranir í vegi aðildarviðræðna hafa að mörgu leyti verið svipaðar og hjá Albönum. Stærsta hindrunin var nafnadeila Grikklands og ríkisins, sem nefndist Makedónía. Beittu grísk stjórnvöld neitunarvaldi sínu gegn inngöngu ríkisins allt þar til samkomulag náðist árið 2018 og ríkið fékk nafnið Norður-Makedónía.