Hundruð þúsunda óbreyttra borgara í norðvestanverðu Sýrlandi, að stórum hluta konur og börn, eru föst með takmarkaðan mat og skjól í frosti vegna hernaðarárásar sýrlenskra stjórnvalda sem studd var af Rússum. Árásin átti sér stað í vikunni en hún var ein fleiri árása sem beinst hafa að sjúkrahúsum og öðrum innviðum samfélagsins.
Árásin á Idlib, síðasta vígi stjórnarandstöðunnar í Sýrlandi, hefur skapað eina mestu mannúðarkreppu í löngu og grimmilegu stríði. Sameinuðu þjóðirnar hafa flutt fleiri en 800.000 frá landinu frá því í desember, þar af 143.000 manns á síðastliðnum þremur dögum. Guardian greinir frá þessu.
„Það er eins og við búum í kirkjugarði,“ sagði Manar al-Deiry, kennari á svæðinu við blaðamann. Hún leitaði skjóls í tjaldi ásamt sjö og níu ára gömlum börnum sínum nálægt landamærum Tyrklands og Sýrlands. Á svæðinu þar sem Deiry dvaldi var snjóþekja.
Deiry var með eins konar prímus meðferðis en var hrædd við að nota hann þar sem reykurinn frá honum olli börnum hennar öndunarerfiðleikum. Einhverjar fjölskyldur á svæðinu hafa kafnað í svefni vegna slíkra erfiðleika.
„Kuldinn er í beinum okkar. Við getum ekki hlýjað okkur meira,“ sagði Deiry. „Aðstæður okkar eru samt sem áður mun betri en hjá þeim sem búa bara undir trjám og hafa ekkert til þess að verja sig frá frostinu.“
Tyrknesku landamærin eru lokuð en Tyrkir hýsa nú þegar 3,5 milljónir sýrlenskra flóttamanna og munu ekki leyfa fleiri flóttamenn.
Recep Tayyip Erdoğan forseti Tyrklands ræddi símleiðis við bandaríska starfsbróður sinn Donald Trump á laugardaginn. Mennirnir tveir kröfðust þess að bardagar í Idlib yrðu stöðvaðir tafarlaust og fordæmdu árásir sýrlenskra stjórnvalda.