Ríki í Evrópu, Bandaríkin og Indland hafa lýst yfir að lyfjaskortur geti verið yfirvofandi kórónuveirunnar COVID-19.
Um 80 prósent af öllu því hráefni sem notað er til lyfjaframleiðslu á Indlandi kemur frá Kína, en mikið hefur dregið úr framleiðslu og vöruflæði eftir að veiran kom upp og gengið hefur vel á lyfjabirgðirnar. Telegraph greinir frá.
Þetta hefur orðið til þess að algeng lyf hafa hækkað mikið í verði þar í landi. Venjuleg verkjalyf eins og paracetamol hefur til dæmis hækkað um 40 prósent í verði síðustu vikur og algeng sýklalyf um allt að 70 prósent.
Yfir 70 þúsund hafa smitast af veirunni, langflestir í Hubei héraði í Kína, þar sem hún á upptök sín í borginni Wuhan. Tæplega 1.900 eru látnir. Veiran hefur lamað Kínverskt samfélag, sérstaklega þau svæði þar sem borgum hefur verið lokað og fólk verið í einangrun vikum saman. Þá hafa fjölmörg fyrirtæki lagt venjulega framleiðslu sína til hliðar og tekið til við að framleiða andlitsgrímur eftir tilmæli frá stjórnvöldum, en farið var að bera á skorti á þeim.