Segja einkenni 80% smitaðra væg

Hér má líta ljósmynd af lækni í Wuhan-borg leiða hópleikfimi …
Hér má líta ljósmynd af lækni í Wuhan-borg leiða hópleikfimi fyrir fólk sem hefur greinst með væg einkenni kórónuveiru. AFP

Einkenni mikils meirihluta þeirra sem greinast með kórónuveiruna COVID-19 eru væg, eða áttatíu prósenta. Aldraðir og þeir sem veikir eru fyrir eiga mesta hættu á að veikjast.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar kínverskra stjórnvalda á útbreiðslu veirunnar, þeirri stærstu sem framkvæmd hefur verið síðan hún hóf að breiðast út í Wuhan í Hubei-héraði í lok árs 2019.

Í niðurstöðunum kemur jafnframt fram að heilbrigðisstarfsfólk eigi í talsverðri hættu á að smitast af veirunni, en AFP-fréttastofan greindi frá því snemma í morgun að forstjóri Wuchang-spítala í Wuhan væri látinn af völdum veirunnar.

Dánarhlutfallið hæst í Hubei

Dánarhlutfall vegna kórónuveirunnar er 2,3%, en það sem af er hafa orðið tæplega 1.900 dauðsföll. Rúmlega 72 þúsund hafa smitast af veirunni, flestir í Hubei-héraði í Kína, þar sem dánarhlutfallið er jafnframt hærra, eða 2,9%. Annars staðar í Kína, það er utan Hubei, er dánarhlutfallið hins vegar aðeins 0,4%.

98 létust af kórónuveirunni í gær, þar af 93 í Hubei, og 1.886 ný tilfelli voru greind. Fleiri en 12 þúsund hafa náð sér af veirunni.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka