Huawei tapaði bandarísku dómsmáli

Fólk gengur fram hjá lógói Huawei í Peking í fyrra.
Fólk gengur fram hjá lógói Huawei í Peking í fyrra. AFP

Stjórnvöld í Washington í Bandaríkjunum hafa rétt til þess að koma í veg fyrir að bandarískar alríkisstofnanir kaupi vörur frá Huawei á grundvelli öryggismála.

Þetta kemur fram í úrskurði bandarísks dómstóls.

Kínverski fjarskiptarisinn höfðaði mál út af þessu fyrir tæpu ári og hélt því fram að Bandaríkjaþing hefði ekki sett fram nægilegar sannanir til að hægt væri að setja lög sem bönnuðu alríkisstofnunum að kaupa vörur Huawei, þjónustu þess eða starfa með þriðja aðila sem eru viðskiptavinir fyrirtækisins. 

Deilan var eitt af því sem stjórnvöld í Peking og Washington tókust á um í viðskiptastríðinu á milli landanna. Bandaríkjamenn hafa sakað Huawei um að stela viðskiptaleyndarmálum frá bandarískum fyrirtækjum. Þeir hafa einnig varað bandalagsríki sín við því að hægt væri að nota búnað fjarskiptarisans til að njósna um önnur lönd.

Huawei hefur neitað ásökunum Bandaríkjamanna og segir að ákvörðun þeirra samræmist ekki stjórnarskránni.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka