Donald Trump Bandaríkjaforseti telur að fyrrverandi ráðgjafi sinn Roger Stone eigi „mjög góðan möguleika“ á sakaruppgjöf eftir að hann var dæmdur í rúmlega þriggja ára fangelsi.
„Að mínu mati á Roger mjög góðan möguleika á sakaruppgjöf,“ sagði Trump.
Hann telur að ekki hafi verið allt með felldu á meðal kviðdómenda í málinu en gefur í skyn að hann ætli ekki að veita honum strax sakaruppgjöf.
„Ég ætla að leyfa þessu ferli að klárast,“ sagði hann. „Á einhverjum tímapunkti mun ég ákveða hvað ég geri….Núna erum við að bíða,“ sagði forsetinn.
Stone var í nóvember í fyrra fundinn sekur um að hindra framgang réttvísinnar og um falskar yfirlýsingar varðandi vitnisburð hans fyrir Bandaríkjaþingi vegna tölvupósta Demókrataflokksins sem stolið var árið 2016.