Fjörutíu milljónir safnast handa Bayles

Quaden Bayles.
Quaden Bayles. Facebook/Yarraka Bayles

Hátt í fjörutíu milljónir króna hafa safnast vegna herferðar til að senda níu ára ástralskan dreng til Disneyland en hann hefur verið lagður í hrottalegt einelti.

Þar með hefur safnast 30 sinnum meira en upphaflega var lagt upp með á síðunni GoFundMe. Það sem verður eft­ir af fjár­mun­um sem safn­ast fyr­ir ferðalag­inu verður gefið til sam­taka gegn einelti.

Myndskeið sem móðir hans, Yarraka Bayles, setti á Facebook og sýnir son hennar, Quaden Bayles, grátandi og biðjandi um að fá að deyja hefur vakið mikla athygli. Horft hefur verið á það 23 milljón sinnum og hefur því verið deilt yfir 360 þúsund sinnum.

Á blaðamannafundi sagðist Yarraka Bayles vonast til að reynsla sonar hennar muni vekja fólk til umhugsunar um afleiðingar eineltis.

„Við erum að missa alltof marga vegna eineltis og mismununar vegna rasisma. Það eru margar hliðar á einelti,“ sagði hún.

„Það er versta martröð foreldra að missa börnin sín og í mínu tilviki er það hluti af mínum veruleika á hverjum einasta degi,“ bætti hún við og sagði að sjálfsvígstilraunir séu „mjög raunverulegar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert