Móðir týndra barna handtekin

Leitin að börnunum hófst í nóvember á síðasta ári eftir …
Leitin að börnunum hófst í nóvember á síðasta ári eftir að fjölskyldumeðlimir gerðu lögreglu viðvart um að þeir hefðu ekki fengið að tala við drenginn síðan í september. Ljósmynd/Lögreglan í Rexburg

Kona á fimmtugsaldri, sem sögð er hafa orðið heltekin af heimsendi, var handtekin á Hawaii í gær, en börnin hennar tvö, sem ekki hefur spurst til síðan í september, eru enn týnd.

Lori Vallow er meðal annars ákærð fyrir að hafa yfirgefið börn sín og vanrækslu, en hvorki hefur spurst til hins sjö ára gamla Joshua Wallow né hinnar 17 ára gömlu Tylee Ryan síðan í september á síðasta ári.

Leitin að börnunum hófst í nóvember á síðasta ári eftir að fjölskyldumeðlimir gerðu lögreglu viðvart um að þeir hefðu ekki fengið að tala við drenginn síðan í september.

Lögregla fór á heimili fjölskyldunnar í Idaho og gaf Vallow þá skýringu á fjarveru Joshua að hann væri í heimsókn hjá fjölskylduvinum í Arizona. Þegar lögregla hafði fengið leitarheimild á heimili fjölskyldunnar, og komist að því að Joshua væri ekki í Arizona, daginn eftir höfðu Vallow og eiginmaður hennar til nokkurra mánaða, Chad Daybell, látið sig hverfa til Hawaii.

Vallow var síðan gefinn frestur til 30. janúar til þess að gera grein fyrir staðsetningu barna sinna, en þegar henni mistókst það var gefin út handtökuskipun á hendur henni, og var hún, eins og áður segir, handtekin í Kauai á Hawaii í gær.

Síðast sást til barnanna í Idaho og segist lögreglan í Kauai ekki hafa fundið neinar vísbendingar sem bendi til þess að börnin séu stödd á Hawaii.

Undirbúa sig fyrir endurkomu Krists

Dularfullt mál fjölskyldunnar hófst þó ekki á hvarfi barnanna, heldur létust bæði fyrrverandi eignmaður Vallow og fyrrverandi eiginkona Daybell á síðasta ári. Fyrrverandi eiginkona Daybell fannst látin á heimili sínu í október og var andlátið fyrst talið af náttúrulegum orsökum, en við nánari rannsókn kom í ljós að eitthvað grunsamlegt hafði átt sér stað. Rannsókn málsins stendur enn yfir.

Fyrrverandi eiginmaður Vallow var svo skotinn til bana af bróður hennar, en hann var ekki saksóttur vegna morðsins því hann lést sjálfur í desember. Eiginmaður Wallow hafði sótt um skilnað í febrúar á síðasta ári og óskað eftir fullu forræði yfir Joshua vegna áhyggja af andlegri heilsu móðurinnar, en fjölskylda Vallow segir hana hafa gengið í sértrúarsöfnuð sem undirbúi sig undir endurkomu Krists.

Umfjöllun Buzzfeed News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka