Skelfilegar afleiðingar eineltis

Quaden Bayles.
Quaden Bayles. Facebook/Yarraka Bayles

Ástralskur, drengur sem hefur orðið fyrir svo hrottalegu einelti að hann á sér enga ósk heitari en að deyja, hefur fengið mikinn stuðning frá fólki úti um allan heim.

Myndskeið sem móðir hans, Yarraka Bayles, setti á Facebook og sýnir son hennar, Quaden Bayles, níu ára grátandi biðjandi um að fá að deyja vegna hrottalegs eineltis í skóla. Quaden er með sjúkdóm sem veldur því að hann er afar lágvaxinn. 

Færslan hefur vakið gríðarlega athygli og í morgun hafði verið horft á myndskeiðið meira en 16 milljón sinnum. Móðir hans segist hafa ákveðið að deila því á Facebook til að vekja fólk til vitundar um vanlíðan þeirra sem verða fyrir einelti. 

„Ég á son sem er í sjálfsvígshugleiðingum nánast hvern einasta dag,“ segir hún í myndskeiðinu. 

Margir hafa lýst yfir stuðningi við Quaden og hefur GoFundMe-síða verið sett upp af bandaríska grínistanum Brad Williams. Þar hafa þegar safnast yfir 150 þúsund Bandaríkjadalir, 19,3 milljónir króna, fyrir ferð í Disneyland í Kaliforníu fyrir drenginn. 

„Þetta er ekki bara fyrir Quaden. Þetta er fyrir alla þá sem hafa orðið fyrir einelti og þeim sagt að þeir væru ekki nógu góðir,“ segir Williams sem er líkt og Quaden fæddur með dvergvöxt sem einkennist af afar stuttum útlimum og of kúptu enni, en bolur er eðlilegur.

Williams segir að það sem verður eftir af fjármunum sem safnast fyrir ferðalaginu verði gefið til samtaka gegn einelti að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar. 

Ástralski leikarinn Hugh Jackman og NBA-leikmaðurinn Enes Kanter eru meðal þeirra hundruð þúsunda sem hafa sent hafa stuðningskveðjur til Bayles-fjölskyldunnar.

„Quaden þú ert sterkari en þú veist félagi. Og hvað sem öðru líður þá áttu vin í mér,“ segir Jackman í myndskeiði sem hann hefur birt á Twitter.

 Quaden Bayles mun einnig leiða ruðningsliðið frumbyggja All-Stars inn á leikvanginn þegar það mætir All Stars liði maóra í Queensland á morgun.

Frétt BBC

Frétt USAToday

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert