Um eitt hundrað farþegar, sem voru í miklum samskiptum við fólk sem smitaðist af kórónuveirunni COVID-19 um borð í Diamond Princess, byrjuðu að yfirgefa skemmtiferðaskipið í dag.
Á meðal þeirra voru síðustu japönsku farþegarnir til að stíga frá borði. Sumir farþegar frá öðrum ríkjum bíða enn um borð eftir því að verða fluttir með flugi heim til sín.
Um 970 farþegar yfirgáfu skipið fyrr í þessari viku en skipið hefur verið í sóttkví í tvær vikur undan ströndum Japans. Farþegarnir verða í sóttkví næstu tvær vikurnar, skammt frá Tókýó.
Áhöfnin, sem telur um eitt þúsund manns, fer líka í fjórtán daga sóttkví. Yfir sex hundruð manns um borð í skipinu smituðust af veirunni.