Fyrsti Evrópubúinn til að látast vegna veirunnar

Hjúkrunarkona með andlitsgrímu á gangi fyrir utan sjúkrahúsið í Codogno, …
Hjúkrunarkona með andlitsgrímu á gangi fyrir utan sjúkrahúsið í Codogno, suðaustur af Mílanó. AFP

Ítalskur karlmaður er fyrsti Evrópubúinn til að látast af völdum kórónuveirunnar, COVID-19.

Maðurinn, sem var 78 ára frá héraðinu Veneto, lést á sjúkrahúsi eftir að hafa verið lagður þangað inn tíu dögum áður.

Adriano Trevision var múrari á eftirlaunum og annar af tveimur sem höfðu greinst með sjúkdóminn í héraðinu. Hann lést nokkrum klukkustundum eftir að yfir 50 þúsund íbúar í tíu bæjum á Ítalíu voru beðnir um að halda sig heima við af ótta við útbreiðslu veirunnar.

Önnur manneskja lést í Suður-Kóreu, að sögn þarlendra yfirvalda.

Veiran hefur núna greinst í yfir 25 löndum. Tilfellum í Kína, fyrir utan héraðið Hubei, hefur fækkað.

Alls hafa 2.345 látist af völdum veirunnar í Kína. Yfir tíu manns hafa látist í öðrum löndum. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert