„Meðhöndluð eins og hundar“

Ronny Jensen og Veronica Eian, stirð í baki og úfin …
Ronny Jensen og Veronica Eian, stirð í baki og úfin í skapi eftir nótt á gólfinu sem þau standa á. Þau eru föst á Gran Canaria og yfir 2.000 Norðmenn (mörg þúsund segir upplýsingafulltrúi Norwegian) eru fastir á Kanaríeyjum á leið heim til Noregs. Öll hótel eru yfirfull vegna samgöngutruflana og hafa margir líklega lokið fríi sínu á þessum vinsælu sólareyjum á jákvæðari nótum en nú. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Við erum meðhöndluð eins og hund­ar, hvorki boðið vott né þurrt og þurf­um að sofa á köldu gólf­inu.“ Þetta sagði svekkt­ur Ronny Jen­sen, Norðmaður á fimm­tugs­aldri á flug­vell­in­um á Gran Can­aria, í sam­tali við norska dag­blaðið VG í gær og sagði far­ir sín­ar og fjöl­skyldu sinn­ar óslétt­ar eft­ir að öllu flugi til og frá Kana­ríeyj­um var af­lýst um helg­ina vegna veður­fyr­ir­bær­is­ins Calima, sand­foks frá Sa­hara-eyðimörk­inni aust­ur af eyj­un­um vin­sælu.

Jen­sen sagði fjöl­skyld­una ekki hafa fengið nokkr­ar ein­ustu upp­lýs­ing­ar. „Skrif­stofa Norweg­i­an seg­ir okk­ur bara að hringja í þjón­ustu­verið til að bóka nýtt flug og starfs­fólk [ferðaskrif­stof­unn­ar] TUI hleyp­ur bara í burtu,“ sagði Jen­sen og deildi enn frem­ur frá­sögn af því að hann og föru­neytið hefðu sofið á hörðu gólfi flug­stöðvar­inn­ar aðfaranótt gær­dags­ins og gæti hann trauðla gengið fyr­ir bak­verkj­um eft­ir þann um­búnað en hvert hót­el­rými Gran Can­aria og Teneri­fe er um­setið vegna ástands­ins. 

Nú er veðrið að ganga niður og búið að opna flesta flug­vell­ina, þó ekki suður­flug­völl­inn á Teneri­fe, en lítið geng­ur þó að koma flug­vél­um SAS og Norweg­i­an í loftið og sitja yfir 2.000 Norðmenn enn fast­ir á eyj­un­um þegar þetta er skrifað.

„Ákaf­lega svekkj­andi aðstaða“

„Tak­markið er að koma farþegum okk­ar heim eins fljótt og auðið er. Til þess þurfa þó flugskil­yrði að batna og þau líta ekki vel út sem stend­ur,“ seg­ir John Eckhoff, upp­lýs­inga­full­trúi SAS, í sam­tali við norska rík­is­út­varpið NRK í morg­un. Hann seg­ir fín­gerð sand­korn­in valda vand­ræðum og óvíst sé hvort það ástand batni yfir dag­inn. Flug­vél­ar fé­lags­ins þurfi að stand­ast skoðun eft­ir sandviðrið og flug­virkj­ar muni fram­kvæma þá skoðun og taka end­an­lega ákvörðun um hvort flogið verði í dag.

Lasse Sanda­ker-Niel­sen, upp­lýs­inga­full­trúi Norweg­i­an, seg­ir NRK að „nokk­ur þúsund“ farþegar fé­lags­ins sitji fast­ir á Kana­ríeyj­um. „Þetta er ákaf­lega svekkj­andi aðstaða fyr­ir farþega okk­ar. Veðrið breyt­ist í sí­fellu og flug­vell­irn­ir hafa verið opn­ir og lokaðir á víxl yfir helg­ina,“ seg­ir Sanda­ker-Niel­sen og tek­ur und­ir það með starfs­bróður sín­um hjá SAS að hjá Norweg­i­an sé ekk­ert vitað um hvort tak­ist að koma fólki heim í dag.

Sól tér sortna. Tenerife South–Reina Sofia-flugvöllurinn í gær.
Sól tér sortna. Teneri­fe South–Reina Sofia-flug­völl­ur­inn í gær. AFP

Hann seg­ir fé­lagið hafa reynt að út­vega farþegum hót­el­her­bergi en þar hafi verið á bratt­ann að sækja þar sem öll hót­el séu smekk­full. Ekki bæti úr skák að nú sé vetr­ar­frí í grunn­skól­um Nor­egs (sum­um alla vega, frí­un­um er deilt niður á fylki lands­ins yfir þriggja vikna tíma­bil) og fjöldi fólks hafi hvort tveggja verið á leið til Kana­ríeyja og til baka til Nor­egs úr fríi.

Spurður út í tak­markaða upp­lýs­inga­gjöf til farþega í óvissu­ástandi seg­ir Sanda­ker-Niel­sen: „Þetta er mjög erfitt ástand fyr­ir farþeg­ana en á hinn bóg­inn hef­ur það ekki verið auðvelt að gefa upp­lýs­ing­ar þar sem við höf­um ekk­ert að upp­lýsa um. Við vit­um al­veg jafn­lítið og farþeg­arn­ir okk­ar um hvenær við kom­umst í loftið.“

Flugi Norweg­i­an sem átti að fara í loftið frá Ósló til Las Palmas klukk­an níu í morg­un, átta að ís­lensk­um tíma, hef­ur verið frestað um óákveðinn tíma. „Þeir sem eiga að fara með því flugi fá bein skila­boð frá okk­ur með SMS-skila­boðum,“ full­viss­ar upp­lýs­inga­full­trú­inn frétta­mann NRK um.

Maiken Wikestad Tobi­assen átti að fljúga til Nor­egs frá Teneri­fe í gær­kvöldi en er þar enn ásamt manni og börn­um. „Núna var verið að til­kynna í hátal­ara­kerf­inu að flug­inu væri af­lýst,“ sagði Tobi­assen við NRK um miðnætti í gær, „við fáum ekki hót­el­her­bergi og verðum að sofa á flug­vell­in­um með börn­in.“

NRK

VG

VGII (Nora og Sofie fast­ar á Gran Can­aria)

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert