Konur sem hafa sakað bandaríska kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um kynferðislegt ofbeldi fagna niðurstöðu héraðsdóms í gær en þar var Weinstein sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart tveimur konum.
Leikkonan Rose McGowan segir í samtali við BBC að þetta sé frábær dagur á meðan aðrar segja að niðurstaðan veki vonir meðal fórnarlamba Weinsteins um að raddir þeirra fái að heyrast.
Weinstein, sem er 67 ára, var ákærður í fimm liðum, eða fyrir tvenns konar kynferðisárásir, tvær nauðganir og eitt kynferðisbrot. Weinstein var sýknaður af nauðgunarákærunum tveimur. Dómurinn þykir tímamótasigur fyrir #MeToo-hreyfinguna. Hann var fluttur í varðhald á Rikers-eyju eftir dómsuppkvaðninguna í New York í gær en fluttur á Bellevue-sjúkrahúsið síðar um kvöldið vegna verkja fyrir brjósti.
Að sögn þeirra sem fylgdust með dómsuppkvaðningunni í gær bar Weinstein tilfinningar sínar ekki á borð þegar dómurinn var kveðinn upp. Hann var öskugrár í andliti og studdi sig við göngugrind líkt og hann hefur gert í réttarhöldunum. Refsingin verður kveðin upp 11. mars og á hann yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsisdóm.
Verjandi hans, Arthur Aidala, segir að Weinstein hafi verið í áfalli og muldrað: „Ég er saklaus. Hvernig getur þetta gerst í Bandaríkjunum?“
Verjendur hans hafa þegar sagt að niðurstöðunni verði áfrýjað.
Yfir 80 konur hafa sakað Weinstein um kynferðisbrot frá því fyrstu ásakanir á hendur honum komu fram í október 2017. Í mörgum tilvikum eru málin fyrnd. Ashley Judd, sem hefur sagt að Weinstein hafi eyðilagt kvikmyndaferil hennar eftir að hún hafnaði kynferðislegum þreifingum hans, var þakklát í gær eftir að dómurinn lá fyrir. „Fyrir konurnar sem báru vitni í þessu máli og gengu í gegnum áfallatengt helvíti, þið sinntuð almannaþjónustu fyrir konur og stúlkur um allan heim. Takk fyrir,“ skrifar hún á Twitter.
Weinstein, sem hefur stöðugt haldið því fram að kynferðislegar athafnir hans hafi alltaf verið með samþykki kvennanna, var ákærður fyrir að hafa nauðgað leikkonunni Jessicu Mann á Double Tree-hótelinu á Manhattan árið 2013. Hann var einnig ákærður fyrir að hafa þvingað fyrrverandi aðstoðarkonu sína, Mimi Haleyi, til munnmaka í íbúð hans. Hann á enn eftir að svara til saka fyrir árásir á tvær konur fyrir dómi í Los Angeles.