Handjárnaður ellefu sinnum og afklæddur tvisvar

Lögmenn Assange lögðu fram kvörtun yfir þeirri meðferð sem hann …
Lögmenn Assange lögðu fram kvörtun yfir þeirri meðferð sem hann mátti sæta í fangelsinu í gær. AFP

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, var handjárnaður ellefu sinnum, afklæddur tvisvar og gögn um mál hans, sem hann hafði undir höndum, voru gerð upptæk eftir fyrsta dag réttarhalda þar sem framsalsbeiðni Bandríkjamanna yfir honum er tekin fyrir. Réttarhöldin hófust í gær í Woolwich-glæpadómstólnum í suðausturhluta London en þá fór fram málflutningur lögmanna bandaríska ríkisins.

Lögmenn Assange lögðu fram kvörtun við dómarann þegar réttarhöldunum var framhaldið í dag og sögðu að reynt væri að hindra að Assange gæti tekið þátt með eðlilegum og sanngjörnum hætti. Lögmenn bandaríska ríkisins tóku í raun undir þetta í dómsal í dag og sögðu mikilvægt að Assange fengi réttláta málsmeðferð.

Framsals­beiðnin bygg­ir á því að Assange sé grunaður um njósn­ir í Banda­ríkj­un­um. Hann er ákærður fyr­ir að brjóta gegn njósna­lög­gjöf Banda­ríkj­anna vegna birt­ing­ar á leyni­leg­um hernaðar- og stjórn­sýslu­gögn­um er varða þjóðarör­yggi. Gögn­in vörpuðu ljósi á aðgerðir Banda­ríkja­manna í Af­gan­ist­an og Írak og upp­ljóstruðu meðal ann­ars um árás­ir Banda­ríkja­hers á sak­lausa borg­ara. Bandarísk yfirvöld vilja meina að Assange hafi vísvitandi stofnað lífi fjölda fólks, meðal annars blaðamanna og aðgerðasinna, í hættu með dreifingu þeirra gagna sem hann komst yfir.

Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan dómhúsið.
Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan dómhúsið. AFP

Edward Fitzgerald, einn lögmanna Assange, sagði að málsgögn sem hann hefði blaðað í meðan á réttarhöldunum stóð í gær hefðu verið gerð upptæk af fangavörðum þegar hann sneri aftur í fangelsið í gærkvöldi. Dómarinn í málinu, Vanessa Baraitser, sagðist ekki hafa nein völd til að gera athugasemdir við aðbúnað hans í fangelsinu. Hún hvatti hins vegar lögmenn hans til að leggja fram formlega kvörtun við fangelsismálayfirvöld.

Ákæru­liðirn­ir í máli Assange eru 18 tals­ins og gæti Assange átt yfir höfði sér 175 ára fang­elsi verði hann fram­seld­ur til Banda­ríkj­anna og réttað yfir hon­um þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert