Lýsa yfir neyðarástandi í San Francisco

London Breed, borgarstjóri San Francisco.
London Breed, borgarstjóri San Francisco. AFP

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í borginni San Francisco í Bandaríkjunum vegna kórónuveirunnar COVID-19. Alls hafa 53 smitast af veirunni í Bandaríkjunum.

Embættismenn í heilbrigðisráðuneytinu vestanhafs sögðu í dag að það væri eingöngu tímaspursmál hvenær veiran færi að dreifa sér þar.

Borgarstjóri San Francisco, London Breed, lýsti yfir neyðarástandi fyrr í kvöld. Hún sagði að ástandið vegna veirunnar væri stöðugt að breytast og embættismenn í borginni þyrftu að vera á tánum.

„Við sjáum að veiran dreifist á nýja staði í heiminum daglega. Þess vegna gerum við það sem þarf til að verja borgina,“ sagði borgarstjórinn.

Alls hafa rúmlega 80 þúsund manns smitast af kórónuveirunni COVID-19, langflestir í Kína. 2.700 hafa látist en 27.800 hafa náð bata.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert