Fyrsta tilfelli kórónuveiru í Noregi er komið fram. Lýðheilsustofnun landsins tilkynnti um þetta á blaðamannafundi síðdegis í dag. Sjúklingurinn er búsettur í Tromsø og sætir einangrunarvist á heimili sínu þar.
„Stofnunin telur hættuna á að manneskjan smiti aðra mjög óverulega. Svo fyllsta öryggis sé gætt er viðkomandi í sóttkví á heimili sínu undir eftirliti heilbrigðisyfirvalda á staðnum í samræmi við verklagsreglur Lýðheilsustofnunar,“ sagði Line Vold, deildarstjóri við stofnunina, á blaðamannafundinum.
Þar til í gær höfðu 100 sýni til prófana verið tekin í Noregi án þess að nokkurt þeirra reyndist jákvætt, en heilbrigðisyfirvöld hafa látið í veðri vaka síðustu vikur að mjög líklegt sé að veiran muni fyrr eða síðar berast til landsins.
Fyrr í dag greindist annar Norðmaður með kórónuveirusmit en sá er námsmaður á Ítalíu þar sem veirunni hefur vaxið mjög fiskur um hrygg síðustu daga. Fullyrða ítalskir fjölmiðlar, þar á meðal Corriere Fiorentino, að þar sé um Norðmann að ræða.
Dr. Margaret Harris við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina WHO sagði við norska ríkisútvarpið NRK síðdegis í dag að Norðmenn skyldu búa sig undir veiruna. „Verið viðbúin. Verið viðbúin í gær. Leggið á ráðin um hvaða heilbrigðisstarfsfólk skuli sinna þeim sem sýkjast og hverjir skuli sinna öðrum. Sjúklingar með aðra sjúkdóma munu áfram þurfa umönnun þótt kórónusmit hafi greinst í landinu,“ sagði Harris.
Eins brýndi hún fyrir Norðmönnum það sem heilbrigðisyfirvöld í landinu hafa þegar gert, að fólk leiti ekki á sjúkrahús eða heilsugæslu fái það einkenni heldur haldi sig í einangrun og hringi í heilbrigðisstofnanir til að fá leiðbeiningar.
Í Svíþjóð greindist annað tilfelli kórónuveiru þar í landi fyrr í kvöld, í Gautaborg samkvæmt upplýsingum frá Sahlgrenska-sjúkrahúsinu.