Trump segir hættuna litla í Bandaríkjunum

Donald Trump á blaðamannafundi vegna veirunnar.
Donald Trump á blaðamannafundi vegna veirunnar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir litla hættu vera á því að kórónuveiran breiðist út af krafti í Bandaríkjunum.

Ummælin eru á skjön við tilmæli bandarískra heilbrigðisyfirvalda sem hafa hvatt Bandaríkjamenn til að forðast fjölmenni og vinna heiman frá sér ef þeir geta.

Sextíu tilfelli hafa greinst í Bandaríkjunum til þessa.

Sóttvarnarlæknir Bandaríkjanna hefur greint frá því að tilfelli kórónuveirunnar, þar sem ekki er hægt að átta sig á upprunanum, hafi komið upp í landinu. Bendir það til þess að veiran er byrjuð að dreifast innanlands.

„Ég held að ástandið geti versnað, að það geti versnað töluvert. Ekkert er óumflýjanlegt,“ sagði Trump í Hvíta húsinu og nefndi að Bandaríkin væru við öllu búin vegna veirunnar.  

Forsetinn sagði að Bandaríkin væru að íhuga að takmarka ferðalög til Ítalíu og Suður-Kóreu vegna veirunnar en í síðarnefnda landinu hafa næstum 1.600 tilfelli greinst sem er það mesta utan Kína.

Í Bandaríkjunum hafa hömlur verið settar á ferðalög til landsins frá Kína.

AFP

Pílagrímum bannað að koma til Sádi-Arabíu

Veiran hefur breiðst út um allan heim undanfarin misseri. Til að mynda hefur pílagrímum verið meinað að koma til Sádi-Arabíu af ótta við útbreiðslu veirunnar, auk þess sem veiran hefur í fyrsta sinn greinst í Pakistan þar sem tveir hafa veikst.

Staðan er núna þannig að fleiri tilfelli greinast utan Kína en í landinu sjálfu, þar sem COVID-19 á upptök sín, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Yfir 2.700 hafa látist í Kína og um 78 þúsund manns hafa smitast. Yfir 50 manns hafa látist í öðrum löndum og um 3.600 hafa smitast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka