Tveimur mínútum eftir opnun markaða í morgun höfðu hlutabréf í kauphöllinni í Ósló fallið um rúmlega þrjú prósent en úr fallinu dró á fyrsta stundarfjórðungnum eftir opnun og náði það jafnvægi í um tveggja prósenta lækkun.
Undanfarna viku hefur norska úrvalsvísitalan fallið um meira en tíu prósent sem að sögn kauphallarmanna er mesta lækkun síðan í fjármálahamförunum árið 2009. Fyrir opnun markaða í morgun hafði fall hlutabréfa numið 274 milljörðum norskra króna á einni viku, jafnvirði 3.729 milljarða íslenskra króna, sem er meira en heildarmarkaðsverðmæti DNB-bankans. Lækkun hlutabréfa í gær, fimmtudag, var sú mesta síðan 24. ágúst 2015.
Flugfélagið Norwegian hélt falli sínu frá því í gær áfram við upphaf viðskipta í morgun og lækkaði um átta prósent en tók svo að hækka á ný og hafði hækkað um tíu prósent frá opnun þegar viðskipti dagsins höfðu staðið í 15 mínútur. Olíufyrirtækið Equinor féll um tvö prósent og DNB-bankinn um 3,4.
Lækkun olíuverðs heldur einnig áfram og hefur tunnan af Brent-Norðursjávarolíu lækkað um 13 til 14 prósent frá því í síðustu viku og kostar nú 50,85 dali.
Viðskipti á mörkuðum einkennast enn af ótta við kórónuveirufaraldurinn og afleiðingar hans eins og lesa má af ótta- og græðgisvísitölu (e. Fear & Greed Index) CNN sem nú stendur í 13 stigum en slík staða telst ofsahræðsla (e. extreme fear).
Fréttaveitan Bloomberg áætlar að verðlækkanir á evrópskum mörkuðum frá opnun í morgun nemi um fjórum prósentum.
Kauphöllin í Ósló glímir nú við tæknivandamál á vef sínum vegna gríðarlegrar umferðar um þau vefsvæði sem sýna hlutabréfavísitölur, skrifar viðskiptamiðillinn E24 nú fyrir skömmu.