Evrópusambandið óttast að allsherjarstríð gæti brotist út í Sýrlandi eftir að tugir tyrkneskra hermanna voru drepnir í loftárásum stjórnarhersins.
„Það er hætta á því að þetta þróist í átt að stórum alþjóðlegum hernaðaraðgerðum. Ástandið núna veldur óbærilegum þjáningum almennra borgara og setur þá í hættu,“ sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, á Twitter.
(2/) EU calls on all sides for rapid de-escalation and regret all loss of life. The EU will consider all necessary measures to protect its security interests. We are in touch with all relevant actors.
— Josep Borrell Fontelles (@JosepBorrellF) February 28, 2020
Evrópusambandið hefur hvatt til þess að dregið verði hratt úr spennunni á svæðinu og hefur stofnunin verið í sambandi við alla sem tengjast málinu.
Neyðarfundur hefur verið boðaður hjá NATO vegna loftárásarinnar, að ósk Tyrkja.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, lýstu í morgun yfir djúpum áhyggjum af ástandinu í sýrlenska héraðinu Idlib eftir að hermennirnir voru drepnir.
Í símasamtali samþykktu þeir að grípa til „aukinna ráðstafana“ og vonast til að hittast fljótlega. Að sögn Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, snerust viðræður forsetanna um að koma á vopnahléi í Idlib-héraði.