Óttast að allsherjarstríð brjótist út í Sýrlandi

Josep Borrell á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum.
Josep Borrell á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum. AFP

Evrópusambandið óttast að allsherjarstríð gæti brotist út í Sýrlandi eftir að tugir tyrkneskra hermanna voru drepnir í loftárásum stjórnarhersins.

„Það er hætta á því að þetta þróist í átt að stórum alþjóðlegum hernaðaraðgerðum. Ástandið núna veldur óbærilegum þjáningum almennra borgara og setur þá í hættu,“ sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, á Twitter. 

Evrópusambandið hefur hvatt til þess að dregið verði hratt úr spennunni á svæðinu og hefur stofnunin verið í sambandi við alla sem tengjast málinu.

Neyðarfundur hefur verið boðaður hjá NATO vegna loftárásarinnar, að ósk Tyrkja. 

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Vladimir Pútín Rússlandsforseti og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, lýstu í morgun yfir djúpum áhyggjum af ástandinu í sýrlenska héraðinu Idlib eftir að hermennirnir voru drepnir.

Í símasamtali samþykktu þeir að grípa til „aukinna ráðstafana“ og vonast til að hittast fljótlega. Að sögn Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, snerust viðræður forsetanna um að koma á vopnahléi í Idlib-héraði.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert