Fyrstu tilfelli kórónuveirunnar greind í Mexíkó

Sex eru í einangrun á sjúkrahúsi í Mexíkó-borg.
Sex eru í einangrun á sjúkrahúsi í Mexíkó-borg. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Mexíkó greindu frá því í dag að fyrstu þrjú tilfelli kórónuveirunnar hefðu greinst þar í landi. Mennirnir þrír sem smitaðir eru, tveir í Mexíkó-borg og einn í Sinaloa-héraði, eru sagðir hafa nýlega snúið heim til Mexíkó frá Ítalíu. Mexíkó er annað landið í Rómönsku-Ameríku þar sem smit hafa greinst.

Sá yngsti af mönnunum þremur er 35 ára gamall og er með væg einkenni. Hann er í einangrun ásamt fimm ættingjum. Annað tilfellið kom upp hjá 41 árs gömlum manni sem var nýkominn frá Bergamo í Ítalíu og er hann í einangrun í Sinaloa. Þriðji maðurinn er á sextugsaldri og var einnig nýlega kominn frá Norður-Ítalíu en yfirvöld hafa ekki greint frá alvarleika veikinda hans.

Tveir einstaklingar til viðbótar eru nú til rannsóknar grunaðir um að bera sjúkdóminn. „Þetta er ekki neyðarástand,“ sagði Hugo Lopez-Gatell hjá heilbrigðisráðuneyti Mexíkó og hvatti landsmenn til að sýna stillingu og ró.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert