Norskir og sænskir fjölmiðlar gera sér mat úr nýju frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra til mannanafnalaga og gerir norska dagblaðið VG heiðarlega tilraun til að útskýra íslenskar nafnahefðir og kannski ekki vanþörf á þar sem skilningur sumra Norðmanna á íslenskum nöfnum nær almennt ekki lengra en að þar nægi að bæta endingunni -ur aftan við gömul norsk fornöfn og málið sé í höfn. Alltént er það upplifun þess sem hér skrifar eftir tíu ára búsetu í landinu.
„Nú er venjulega notast við móður- og föðurkenningar sem táknar að það sem lítur út fyrir að vera eftirnafn [hér átt við ættarnafn að skandinavískum sið] ræðst af fornafni móður eða föður með -son eða -dottir sem endingu,“ skrifar VG í dag og tekur svo nafn dómsmálaráðherra sem kennsludæmi:
„Þetta táknar til dæmis að faðir Áslaugar Örnu heitir Sigurbjörn og allir ganga undir fornafni sínu, líka í blöðunum, þar sem það sem líkist eftirnafni er það í raun ekki. Í símaskránni er fólki raðað eftir fornafni,“ útskýrir blaðið enn fremur.
Er svo brugðið á leik og Norðmönnum gefinn kostur á að láta nafnareiknivél finna út hvert íslenska nafnið þeirra væri, rétt eins og í samfélagsmiðlaleikjum sem ganga út á að segja þátttakandanum hvaða persóna Stjörnustríðsmyndanna eða Múmínálfanna hann væri.
„Hvert er íslenska nafnið þitt?“ stendur þar og freistandi að láta reyna á spádómsgáfu forritsins. Upplagt að velja þá kunna norska stjórnmálakonu sem var mikið í fréttum á Íslandi á síðustu öld, Gro Harlem Brundtland forsætisráðherra, enda rámar blaðamann í að fornafn föður hennar smellpassi við íslenskan nafnaútreikning.
Ekki stóð á svarinu, „Gró Freya Guðmunðdottir“, ágæt tilraun en vekti líklega verðskuldaða athygli á íslenskum skilríkjum. Sitjandi dómsmálaráðherra, Monica Mæland, úr því VG útskýrir nafn íslenskrar starfssystur hennar sérstaklega, væri samkvæmt nafnavél VG „Mónicá Óttódottir“.
Hér geta fróðleiksfúsir spreytt sig á íslenska nafnareikninum
Sænski málfarsmiðillinn Språktidningen fjallar um helstu nýmæli í frumvarpinu, svo sem að frumvarpið geri ráð fyrir að 95 ára gamalt bann við töku ættarnafna verði afnumið auk þeirrar tilslökunar að fornöfn þurfi, verði frumvarpið að lögum, hvorki lengur að taka íslenskri eignarfallsendingu né falla að íslensku málkerfi.
Einnig tekur sænski miðillinn það fram að eftir sem áður verði öll nöfn að hefjast á hástaf auk þess sem eiginnafn megi ekki vera nafnbera til ama.