Ríkisstjórn Frakklands mun þvinga í gegn umdeildar breytingar á eftirlaunakerfi landsins og sniðganga þannig franska þingið. Frá þessu greindi Edouard Philippe forsætisráðherra í pontu í dag.
Breytingunum, sem kynntar voru í nóvember, er ætlað að samræma eftirlaunakerfi landsins og afnema ýmis sérstök fríðindi opinberra starfsmanna. Þar með talið er réttur opinberra starfsmanna til að fara á eftirlaun 62 ára. Verði tillögurnar samþykktar munu opinberir starfsmenn þurfa að bíða til 64 ára aldurs til að fá full eftirlaun, og hafa þau áform lagst illa í margan opinberan starfsmanninn.
Stjórnarandstæðingar á franska þinginu beittu málþófi til að tefja afgreiðslu frumvarpsins, en alls lögðu þingmenn fram rúmlega 41.000 breytingartillögur. „Eftir rúmlega 115 tíma umræður að nóttu og degi hefur þinginu aðeins tekist að komast í gegnum átta greinar af 65 og á eftir að fara yfir meira en 29.000 breytingartillögur,“ sagði Philippe.
Sagðist hann harma að markvissar aðgerðir stjórnarandstæðinga, til að koma í veg fyrir að frumvarpið fengi hefðbundna meðferð, yrðu nú til þess að ekki væri hægt að ræða málið almennilega.
Beitir forsætisráðherrann því lítið notuðu ákvæði 49. greinar frönsku stjórnarskrárinnar, sem jafnan er þekkt sem 49-3, en þar segir að ríkisstjórnin geti þvingað í gegn lagabreytingar án atkvæðagreiðslu svo fremi sem þingið samþykki ekki vantrauststillögu í kjölfarið.
Stjórnarandstæðingar af hægri og vinstri kanti franskra stjórnmála hafa boðað vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni, en ætla má að ríkisstjórnin standi hana af sér. Stjórnarflokkurinn La Republique en Marche, flokkur Macron forseta, hefur 306 sæti af 577 á franska þinginu.
Umræddu ákvæði var síðast beitt árið 2013 er sósíalistinn Francois Hollande, þáverandi Frakklandsforseti, keyrði í gegn ýmsar breytingar á franskri vinnumarkaðslöggjöf, sem margar hverjar voru að undirlagi Emmanuels Macron, núverandi forseta, sem þá gegndi embætti viðskiptaráðherra.
Macron forseti hefur sjálfur lýst breytingunum á lífeyriskerfinu sem „sögulegum umbótum“, sem ætlað sé að breyta frönsku þjóðfélagi í velferðarsamfélag 21. aldar og koma í veg fyrir 17 milljarða evra skuldasöfnun sem fyrirséð er í frönsku lífeyriskerfi til ársins 2025, verði ekkert að gert. Samkvæmt gögnum frá OECD fara Frakkar mun fyrr á eftirlaun en flestar vestrænar þjóðir, en meðalaldur Frakka við upphaf eftirlaunatöku er rétt rúmlega 60 ár. Hafði forsetinn heitið því að ráðast í þessar breytingar í kosningabaráttunni.