Bandaríkjaforseti hvatti til stillingar

Donald Trump Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær, …
Donald Trump Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær, þar sem rætt var um veiruna. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum greindu frá því í gær að einn einstaklingur í Washington-ríki hefði látið lífið vegna kórónuveirunnar. Um var að ræða konu á sextugsaldri með undirliggjandi heilsufarsvandamál.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóðina eftir að þetta var tilkynnt í gærkvöldi og sagði hann að auk konunnar sem er látin væru fjórir einstaklingar sárveikir vegna smits og líklegt væri að enn fleiri bandarískir ríkisborgarar myndu veikjast af veirunni. Forsetinn hvatti þó til stillingar og sagði enga ástæðu til þess að fara á taugum vegna útbreiðslu veirunnar.

Dauðsföll tilkynnt í Ástralíu og Taílandi

Heilbrigðisyfirvöld í Ástralíu og Taílandi hafa einnig gefið það út í dag að sjúklingar hafi látist vegna veirunnar, einn í hvoru landi.

Í Ástralíu var um að ræða 78 ára gamlan mann sem smitaðist um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Prinsess rétt eins og fleiri en 700 aðrir farþegar skipsins, sem lónar enn í sóttkví við Japansstrendur. Eiginkona hans er einnig smituð og liggur á spítala.

Í Taílandi lést 35 ára gamall maður, en heilbrigðisyfirvöld þar segja að sá látni hafi einnig verið veikur af beinbrunasótt (e. dengue fever).

Nærri 87 þúsund smit hafa verið greind á heimsvísu, í um það bil sextíu ríkjum og tæplega 3.000 manns hafa látist, langflestir í Hubei-héraði í Kína þar sem veirunnar varð fyrst vart í lok síðasta árs.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka