Buttigieg dregur sig í hlé

Pete Buttigieg tekur þátt í Edmund Pettus-brúargöngunni í dag, 1. …
Pete Buttigieg tekur þátt í Edmund Pettus-brúargöngunni í dag, 1. mars, þar sem blóðuga sunnudagsins 1. mars 1965 í Selma í Alabama var minnst. AFP

Pete Buttigieg, áður einn mögulegra frambjóðenda Demókrataflokksins fyrir bandarísku forsetakosningarnar í nóvember, hefur lagt árar í bát eftir slakt gengi í forkosningunum í Suður-Karólínu um helgina.

Það er dagblaðið New York Times sem greinir frá þessu í kvöld og ber heimildarmann, sem þekkir vel til áætlana Buttigieg, fyrir tíðindunum. Washington Post greinir einnig frá brotthvarfi frambjóðandaefnisins úr forkosningaslagnum og fleiri miðlar bætast í hópinn.

Buttigieg fór naumlega með sigur af hólmi í Iowa í febrúar og átti sterkt annað sæti í New Hampshire þar sem hann átti hug og hjörtu frjálslyndra hvíta demókrata.

Ekki feitan gölt að flá í kosningasjóðum

Buttigieg hefur hins vegar ekki átt upp á pallborðið hjá þeldökkum kjósendum, síst af öllu í Suður-Karólínu þar sem einungis þrjú prósent þeirra vildu veita honum brautargengi.

Sjóðir Buttigieg hafa þornað hratt upp eftir orrusturnar í Iowa og New Hampshire sem kostuðu hann bróðurpart þeirra 76 milljóna dala sem honum auðnaðist að afla sér í fyrra sem veganesti fyrir framboðið. Á þriðjudaginn er svokallaður ofurþriðjudagur þegar forkosningar fara fram í 15 ríkjum og þótti Buttigieg tekinn að standa býsna höllum fæti nær örvasa fyrir þann úrslitaviðburð.

New York Times

LA Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert