Táragasi beitt á landamærum Tyrklands og Grikklands

Flóttafólk á gangi í dag frá Istanbúl áleiðis að landamærum …
Flóttafólk á gangi í dag frá Istanbúl áleiðis að landamærum Grikklands þar sem ætlunin er að komast yfir til Grikklands. AFP

Gríska lögreglan beitti táragasi á hundruð flóttamanna sem flykktust að landamærum landsins frá Tyrklandi, en yfirvöld í Tyrklandi ákváðu um helgina að slaka á gæslu við sín landamæri eftir að 33 tyrkneskir hermenn voru drepnir í loftárás í Norður-Sýrlandi. Reuters greinir frá.

Gríska ríkisstjórnin hefur kallað stöðuna ógnun við þjóðaröryggi og sagði forsætisráðherrann Kyriakos Mitsotakis á Twitter að flóttafólk ætti ekki að reyna að komast ólöglega til Grikklands. „Ykkur verður snúið við.“

Sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar að flóttafólkið væri notað af Tyrkjum sem peð til að skapa diplómatískan þrýsting.

Innanríkisráðherra Austurríkis, Karl Nehammer, hefur einnig tjáð sig um stöðuna, en hann sagði að ríkið myndi stöðva allar tilraunir flóttafólks til að komast inn í landið ef tilraunir Grikklands og ríkjanna á Balkanskaganum til að stöðva straum flóttafólks myndi ekki takast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert