Erlendir ferðamenn sem koma frá skilgreindum áhættusvæðum vegna kórónuveiru, sem í dag eru Ítalía, Kína, Suður-Kórea og Íran, þurfa ekki að fara í sóttkví við komuna hingað til lands heldur einungis íslenskir ríkisborgarar og aðrir sem hafa búsetu hér á landi.
Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á blaðamannafundi sem haldinn var í samhæfingarmiðstöð Almannavarna í Skógarhlíð í dag.
Mörgum kann að þykja þetta hljóma hálfundarlega, að einungis Íslendingum og öðrum íbúum hér sem koma að utan sé bent á að fara í sóttkví, á meðan ferðamenn sem hafa dvalið á sömu slóðum þurfa þess ekki.
mbl.is setti sig í samband við Kjartan Hrein Njálsson, aðstoðarmann landlæknis, til að fá á þessu nánari skýringar, en þetta atriði hefur ekki komið neitt sérlega skýrt fram í þeim boðum sem embætti landlæknis hefur sent frá sér til þessa.
Kjartan Hreinn segir að fyrsta ástæðan sé sú að það að setja erlenda ferðamenn í sóttkví í miklum mæli „varla gerlegt“ vegna þess fjölda sem um ræðir. Fjöldinn er vissulega mikill. Í janúarmánuði fóru tæplega 13.000 Kínverjar í gegnum Keflavíkurflugvöll, yfir 2.600 Ítalar og tæplega 2.300 manns frá Suður-Kóreu. Allt í allt um það bil 18 þúsund manns.
Önnur ástæðan er svo sú að erlendur ferðamaður sem hér er í allt öðruvísi samneyti við samfélagið en einstaklingar sem eru búsettir hér og talinn ólíklegri til þess að breiða smit út í samfélagið.
„Ferðamenn eru í sínum hópi, alla jafna, þeir hafa stutta viðveru á hverjum stað sem þeir heimsækja, eru í miklum samskiptum við aðra ferðamannahópa og það eru minni líkur á að ferðamaður sem er smitaður og með einkenni að hann sé að koma einhverju smiti áleiðis. Það er áhættumat sem við gerum fyrir þennan hóp,“ segir Kjartan.
Einnig er talin hætta á því að ferðamenn myndu einfaldlega ljúga til um það, við komuna til landsins hvaðan þeir væru að koma, ef þeir vissu til þess að þeir færu beint í sóttkví. Útilokað væri svo að fara í það að sortera fólk eftir þjóðernum.
Því væri sú aðgerð að setja alla frá skilgreindum hættusvæðum í sóttkví líkleg til þess „hripleka“, vera ómarkviss ófullnægjandi, fyrir utan auðvitað að hún yrði „hræðilega dýr“ að sögn Kjartans.
Auðvitað getur þó verið að ferðamaður sem kemur hingað til lands beri veiruna með sér. „Þess vegna höfum við verið að koma upplýsingum til ferðamanna, allir sem lenda á Keflavíkurflugvelli [og öðrum alþjóðaflugvöllum og ferjumhöfnum] eiga að fá SMS með upplýsingum um 1700, leiðbeiningum um hvernig eigi að nálgast upplýsingar hjá landlækni og svo erum við með alla ferðaþjónustuaðila með í spilinu og Safe Travel sem eiga að vera að miðla upplýsingum til fólks,“ segir Kjartan Hreinn.
Einnig hefur verið lögð áhersla á að koma leiðbeiningum til fólks sem stendur í framlínu í ferðaþjónustunni um hvernig eigi að nálgast fólk.
Kjartan segir að ákveðið hafi verið að fara þessa leið af því að það sé ekki í boði að loka landinu, taka alla þá ferðamenn sem hingað koma frá skilgreindum hættusvæðum og setja í sóttkví né að grípa til enn umfangsmeiri aðgerðar, sem væri að vísa ferðamönnum frá skilgreindum hættusvæðum strax til baka frá landinu.
„Þegar maður horfir á þetta svona blákalt, þá er auðvitað ákveðin þversögn í þessu og almenn skynsemi segir manni að það sé hægt að gera þetta á einfaldari máta, en við höfum lagst í mikla greiningarvinnu á því hvernig væri best að gera þetta og þetta er sú niðurstaða sem við komumst niður á mjög fljótt í þessu ferli,“ segir Kjartan.
Talsmenn yfirvalda komu þökkum á framfæri til þeirra sem hafa orðið við beiðni um að setja sjálfa sig í sóttkví á blaðamannafundi í dag, en eins og fram hefur komið eru í dag um 260 manns hér á landi í sóttkví á heimilum sínum.
Kjartan tekur undir þær þakkir og segir yfirvöld reyna að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar fólks, af því að á sama tíma og vitað er að um 80% þeirra sem greinast með sýkingu fái einungis væg einkenni séu ákveðnir litlir hópar, til dæmis fólk með undirliggjandi heilsufarsbresti, sem geti veikst alvarlega vegna veirunnar.
„Það er hluti fólks sem er útsettur fyrir ansi slæm veikindi, en við þurfum að fá alla til þess að taka þessu af sömu alvöru og þeir sem geta orðið mjög veikir. Við erum að senda svolítið erfið skilaboð, því flestir eiga ekki á hættu á að verða alvarlega veikir, en þeir verða að fara eftir okkar ráðleggingum til að vernda þennan litla hóp,“ segir Kjartan.