Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, vann sigur í átta ríkjum af þeim fjórtán þar sem kosið var í forvaldi demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í gær.
Öldungadeildarþingmaðurinn frá Vermont, Bernie Sanders, vann sigur í þremur ríkjum og þykir ljóst að baráttan um hver verður forsetaefni Demókrataflokksins stendur nú á milli Sanders og Bidens en atkvæða er enn beðið í Texas og Kaliforníu.
Öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren og Michael Bloomberg riðu ekki feitum hesti frá „ofurþriðjudeginum“ (e. Super Tuesday) og líklegra en ekki að þau heltist fljótlega úr lestinni.
Áður höfðu Amy Klobuchar, Pete Buttigieg og Beto O'Rourke öll dregið framboð sitt í forvali demókrata til baka en þau ákváðu í framhaldinu öll að styðja Biden.
Demókratar kusu um 1.344 kjörmenn en 1.991 kjörmann þarf til að tryggja sér útnefningu flokksins. Eins og staðan er núna hefur Biden tryggt sér 396 kjörmenn og Sanders 314.