Dans á götum úti og iðandi mannlíf við vinsæl kennileiti borgarinnar Wuhan heyrir nú sögunni til, að minnsta kosti um tíma.
Frá því að kórónuveiran sem veldur COVID-19-sjúkdómnum greindist í borginni í lok síðasta árs hefur borgin, sem eitt sinn iðaði af mannlífi og menningu, umbreyst í draugaborg.
Ellefu milljónir manns búa í Wuhan, sem er sjöunda stærsta borg Kína. Borgin er ein mikilvægasta iðnaðarborg landsins og hvergi í landinu eru fleiri háskólanemar en í Wuhan. Borgin er einnig mikilvæg samgöngumiðstöð en tuttugu milljónir farþega fara um Wuhan-flugvöllinn árlega.
Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá svipmyndir frá borginni, annars vegar frá september í fyrra og hins vegar frá því í janúar. Umbreytingin á rúmum fjórum mánuðum er sláandi.
Alls hafa 3.198 látist af völdum veirunnar og rúmlega 80.000 smitast. Veiran á upptök sín á fiskmarkaði í Wuhan sem er í Hubei-héraði í Kína. Dauðsföllum í Kína af völdum veirunnar hefur nú farið fækkandi þrjá daga í röð, en 38 létust á meginlandi Kína í gær.
Samkvæmt frétt AFP virðast strangar aðgerðir kínverskra stjórnvalda varðandi sóttkví skila sér í því að dauðsföll vegna veirunnar hafa ekki verið færri í Kína síðan í janúar.