Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag hefur heimilað rannsókn á meintum stríðsglæpum í Afganistan og snúið þannig við fyrri úrskurði.
Fatou Bensouda, saksóknari glæpadómstólsins, hefur í þrjú ár óskað eftir ítarlegri rannsókn á meintum stríðsglæpum í Afganistan.
Beiðninni var hafnað í fyrra en nú getur rannsókn loks hafist. Rannsóknin nær til ódæðisverka afganska stjórnarhersins, Talibana, sem og glæpa sem bandarískir hermenn og starfsfólk leyniþjónustunnar kunna að hafa framið frá árinu 2003.
Afganistan á aðild að alþjóðaglæpadómstólnum en það eiga Bandaríkin ekki. Þarlend stjórnvöld viðurkenna ekki að lögsaga dómsins nái til bandarískra ríkisborgara.
Mannréttindasamtök víða um heim hafa fagnað úrskurði glæpadómstólsins frá því í morgun.