Skortur á veiruprófum í Bandaríkjunum

Skortur er á veiruprófum sem greina COVID-19, sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur, í Bandaríkjunum. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sem fer fyrir aðgerðahópi sem á að takast á við útbreiðslu kórónuveirunnar, viðurkenndi skortinn á fundi í gær og sagði stjórnvöld ekki ná að standa við gefið loforð um að útvega milljónir veiruprófa í vikunni. 

Bandaríska þingið sýndi snör handtök í vikunni og samþykkti viðauka sem ætlað er að hefta útbreiðslu veirunnar. 

Jay Inslee, ríkisstjóri Washington, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, létu …
Jay Inslee, ríkisstjóri Washington, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, létu olnbogana nægja þegar þeir heilsuðust á blaðamannafundi í gær. AFP

Liðsmenn strandgæslunnar í Kaliforníu komu veiruprófum um borð í skemmtiferðaskipið Diamond Princess. Skipið hefur verið kyrrsett eftir að farþegi lést af völdum COVID-19 í gær. Nær 4.000 farþegum og áhöfn hefur verið gert að halda kyrru fyrir í skipinu, sem er skammt undan strönd Kaliforníu.

Yfir 92.000 smit hafa greinst í heiminum frá því veiran hóf að breiðast út í Hubei-héraði í Kína í lok síðasta árs. 80.000 smitanna má rekja til meginlands Kína. 3.000 hafa látið lífið af völdum COVID-19.

12 dauðsföll eru staðfest í Bandaríkjunum og 200 hafa smitast í 20 ríkjum. Níu af þeim 12 sem hafa látist voru íbúar á hjúkrunarheimili í Seattle. 

Sérfræðingar innan heilbrigðisgeirans óttast að tilfellin í Bandaríkjunum séu fleiri en staðfest hafa verið, ekki síst vegna skorts á veiruprófum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert