Ferða- og samkomubann yfir alla Ítalíu

Loka þarf fjölmörgum samkomustaðum í landinu.
Loka þarf fjölmörgum samkomustaðum í landinu. AFP

Öll Ítalía mun sæta þeim ráðstöfunum sem hingað til hafa takmarkast við rauða svæðið svokallaða í norðurhluta landsins. Þetta felur í sér algjört bann við almenningssamkomum og ferðum á milli staða sem ekki eru vegna vinnu eða neyðar.

Þetta tilkynnti forsætisráðherrann Giuseppe Conte rétt í þessu.

Fréttastofa Reuters hefur eftir Conte að þessi ákvörðun sé nauðsynleg til að vernda viðkvæmustu borgara landsins. Það rétta í stöðunni fyrir Ítali núna sé að halda kyrru fyrir heima hjá sér.

Loka kvikmyndahúsum og aflýsa brúðkaupum

Ferða- og samkomubannið nær yfir meira en 60 milljónir manna.

Vegna bannsins þarf að loka kvikmyndahúsum, leikhúsum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, börum og aflýsa útförum, brúðkaupum og öllum íþróttaviðburðum, þar á meðal leikjum í efstu deild knattspyrnunnar þar í landi.

Öllum skólum verður þá haldið lokuðum þar til að minnsta kosti 3. apríl.

Conte segist munu skrifa undir tilskipun þessa efnis núna. Hún taki gildi í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert