Réttarhöld yfir fjórmenningum sem ákærðir eru fyrir að hafa skotið niður farþegaþotu Malaysia Airlines, flug MH17, sem var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur í júlí 2014, hófust í Amsterdam í morgun.
298 manns af tíu þjóðernum létu lífið þegar vélinni var grandað. Tveir þriðju hinna látnu voru hollensk.
Alþjóðlegt teymi rannsakenda sem unnið hefur að rannsókn á árásinni á flugvélina fór fram á það síðasta sumar að mennirnir fjórir yrðu ákærðir. Rannsóknarnefndin, sem leidd er af Hollendingum, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Rússarnir Igor Girkin, Sergey Dubinskíj og Oleg Pulatov auk Úkraínumannsins Leonid Kharchenko, beri ábyrgð á því að BUK Telar-flugskeytið sem grandaði flugvélinni hafi verið flutt yfir landamæri Rússlands til Úkraínu. Rússnesk yfirvöld hafa neitað því frá upphafi að vera viðriðin árásina.
Dómari við dómstólinn sagði málið „grimmdarlega hörmung“ við upphaf réttarhaldanna í morgun. Ríkin hafa neitað að framselja hina ákærðu og því verða þeir ekki viðstaddir réttarhöldin. Lögmaður eins Rússans er viðstaddur réttarhöldin og hefur ákæruvaldið sagst vera tilbúið að taka við vitnisburði í formi myndskeiða.