Bandarískir hermenn yfirgefa Afganistan

Banda­ríkja­menn réðust inn í Af­gan­ist­an skömmu eft­ir að hryðju­verka­menn al-Qa­eda …
Banda­ríkja­menn réðust inn í Af­gan­ist­an skömmu eft­ir að hryðju­verka­menn al-Qa­eda réðust á Tví­bura­t­urn­ana í New York, 11. sept­em­ber 2001. Síðan þá hafa yfir 2.400 banda­rísk­ir her­menn lát­ist í átök­um í land­inu og um 12.000 banda­rísk­ir her­menn eru þar enn. Fækkun herliðs er nú hafin. AFP

Brottflutningur bandarískra hermanna frá Afganistan er hafinn en fækkun í herliði Bandaríkjanna úr rúmlega 12 þúsund hermönnum í 8.600 er liður í friðarsamkomulagi sem Bandaríkin og talíbanar undirrituðu í lok febrúar. Samkomulagið er sögulegt en það var undirritað eftir 18 ára samfelld stríðsátök. 

Fækkun herliðsins á að vera lokið 135 dögum eftir undirritun samkomulagsins og er það ferli nú formlega hafið. 

Afgönsk stjórnvöld voru ekki hluti af samkomulaginu og hét Ashraf Ghani, forseti landsins, því að föngum yrði ekki sleppt úr haldi líkt kveðið er á um í samkomulaginu. Nú virðist forsetanum hafa snúist hugur og mun hann gefa út tilskipun þess efnis fljótlega sem kveður á um að þúsund föngum verði sleppt úr haldi afganskra stjórnvalda. 

Ghani sór embættiseið í gær en úrslit forsetakosningar sem fóru fram í Afganistan í haust voru kunngjörð í síðasta mánuði. Sú óvenjulega staða er uppi hjá afgönskum stjórnvöldum að tveir forsetar sóru embættiseið. 

Ghani var lýstur sigurvegari með 50,6% atkvæða en Addullah Abdullah, mótframbjóðandi Ghani, viðurkenndi ekki úrslitin og kveðst sjálfur ætla að reyna að mynda stjórn. Abdullah var umkringdur stuðningsmönnum er hann sór embættiseið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert