Stöðva þyrluflug til olíupalla

Pallur á Martin Linge-svæðinu, þar sem grunur leikur á kórónusmiti …
Pallur á Martin Linge-svæðinu, þar sem grunur leikur á kórónusmiti á tveimur stöðum. Ljósmynd/Equinor

Norska ríkisolíufyrirtækið Equinor hefur stöðvað alla þyrluumferð til og frá fimm olíupöllum á meðal annars Oseberg-olíuvinnslusvæðinu í Norðursjónum, um 130 kílómetra norðvestur af Bergen, vegna gruns um kórónuveirusmit á pöllunum. Hinir pallarnir eru á Gullfaks- og Martin Linge-svæðunum. Þrír pallanna eru borpallar, einn er íbúðapallur og einn stjórnstöð Oseberg-svæðisins.

„Við sendum þyrlurnar ekki af stað aftur fyrr en við höfum fengið svar við prófunum,“ segir Morten Eek upplýsingafulltrúi í samtali við Bergens Tidende í kvöld.

Smittilfelli í Noregi orðin 400

Equinor greindi frá því í gær, mánudag, að grunur léki á smiti á þremur pallanna og stöðvaði þá þegar alla flutninga starfsfólks til þeirra og frá. Eek vill ekki gefa upp hve margir það eru sem hugsanlega hafa smitast en segir að allir sem hafi einkenni séu nú í einangrun á meðan prófniðurstaðna er beðið.

Hann segir fjölda einangraðra þó ekki svo mikinn að áhrif hafi á starfsemi pallanna en útilokar ekki að fleiri bætist í hóp þeirra sem prófa þurfi, sem er í takt við þróun mála uppi á landi þar sem smittilfelli eru nú orðin 400, en þau voru 356 undir kvöld.

Eek segir athugað með ferðir allra sem komi að þyrluhöfnum á landi á leið út á olíuvinnslusvæðin eftir frívakt. Hafi viðkomandi ferðast um áhættusvæði á frívaktinni, sem gjarnan er þrjár eða fjórar vikur á milli þess sem dvalið er á pöllunum, fari hann eða hún þegar í þriggja vikna sóttkví að kröfu fyrirtækisins. Auk þessara varúðarráðstafana hefur Equinor takmarkað vinnuferðir starfsfólks síns við allra nauðsynlegustu viðskiptaferðir.

VG (nýjasta smittölfræði í Noregi)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka